Haukur Þrastarson var stórkostlegur í dag þegar hann leiddi Rhein-Neckar Löwen til sigurs á Stuttgart á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik, 38:34. Selfyssingurinn fór nánast með himinskautum í leiknum. Hann skoraði 14 mörk í 16 skotum. Auk þess gaf hann sex stoðsendingar og var þar með maðurinn á bak við 20 af 38 mörkum liðsins. Eins og gefur að skilja fengu varnarmenn Stuttgart ekki neitt ráðið við Hauk í þessum ham.
Stórleikur Hauks kemur á góðum tíma því íslenska landsliðið kemur saman í München á morgun til tveggja vináttuleikja við þýska landsliðið á næstu dögum. Ljóst er að Haukur kemur í dúndurformi til liðs við félaga sína í landsliðinu.
Haukur hefur leikið vel með Rhein-Neckar Löwen og er m.a. stoðsendingahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar. Leikur hans í dag tekur hinsvegar öðru fram af því sem Haukur hefur sýnt á keppnistímabilinu.
Rhein-Neckar Löwen er í 7. sæti deildarinnar með 12 stig að loknum 10 leikjum.




