Andreas Wolff, markvörður þýska landsliðsins og THW Kiel, er ekki ýkja hrifinn af þeim liðum sem notast við sjö á sex leikskipulagið, þar sem markverði er fórnað fyrir auka sóknarmann og markið því skilið eftir autt á meðan sótt er.
Wolff sat fyrir svörum á fréttamannafundi í Herning í dag og ræddi um fyrstu andstæðinga sína á Evrópumótinu, Austurríki, sem styðst einmitt gjarnan við sjö á sex í sókn.
„Austurríki spilar algjöran and handbolta. Það vill í raun enginn horfa á þetta. Þetta er mjög óaðlaðandi, líka fyrir okkur leikmenn.
Þeir eru með stórkostlegan markvörð í Constantin Möstl frá TBV Lemgo Lippe og ásamt liðsfélaga hans Lukas Hutecek og Mykola Bilyk eru þeir með tvo leiðtoga sem stýra sóknarleiknum, í öllum hans ljótleika,“ hefur Handball Planet eftir Wolff.
Þýskaland, sem Alfreð Gíslason þjálfar, mætir Austurríki í Herning á fimmtudagskvöld klukkan 19:30.




