Spænska félagið Barcelona hefur mikinn áhuga á að klófesta portúgalska ungstirnið Kiko Costa, sem væri hugsaður sem arftaki franska handknattleikssnillingsins Dika Mem.
Mem fer til Þýskalandsmeistara Füchse Berlín sumarið 2027 og vill Barcelona hafa vaðið fyrir neðan sig þegar kemur að vali á hæfasta mögulega arftaka. Costa er tvítug hægri skytta sem leikur með Sporting CP.
Franski snillingurinn til Berlínar
Áhuginn er gagnkvæmur
Spænski miðillinn Mundo Deportivo greinir frá því að Barcelona eigi í viðræðum við Sporting, sem landsliðsmaðurinn Orri Freyr Þorkelsson leikur með.
Costa, sem er ein efnilegasta örvhenta skytta heims, er sagður áhugasamur um að ganga til liðs við Barcelona. Spænsku meistararnir vilja fá hann til liðs við sig strax í sumar.
Einnig áhugi á eldri bróðurnum
Barcelona hefur einnig áhuga á Martím Costa, eldri bróður Kiko, sem er vinstri skytta og er einnig leikmaður Sporting.
Spænska félagið þyrfti að greiða Sporting fyrir bræðurna þar sem þeir eru báðir samningsbundnir til sumarsins 2030.




