Króatíski markvörðurinn Dominik Kuzmanovic gengur til liðs við Íslendingalið SC Magdeburg frá öðru Íslendingaliði, Vfl Gummersbach, í sumar. Kuzmanovic mun mynda markvarðapar með landa sínum Matej Mandic.
Tveir af markvörðum Magdeburg róa á önnur mið í sumar. Í dag tilkynnti félagið að Svisslendingurinn Nikola Portner haldi annað þegar samningur hans rennur út og þegar var búið að tilkynna að Sergey Hernández fari til Barcelona í sumar og veiti Viktori Gísla Hallgrímssyni samkeppni.
Báðir aðeins 23 ára
Eftir standa þá Kuzmanovic og Mandic, en þeir eru báðir aðeins 23 ára gamlir og eiga því framtíðina fyrir sér með Magdeburg og króatíska landsliðinu.
Handball Planet skýrði frá því að Magdeburg og Gummersbach hefðu fyrir áramót komist að samkomulagi um kaupin á Kuzmanovic, sem hefur leikið undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá Gummersbach frá sumrinu 2024.
Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson eru leikmenn Gummersbach og þeir Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Elvar Örn Jónsson leika allir með Magdeburg.




