Gagnrýni Andreas Wolff, markvarðar Þýskalands, í garð Austurríkis hefur ekki fallið í kramið hjá leikmönnum austurríska liðsins.
Á fréttamannafundi í vikunni sagði Wolff að Austurríki spilaði ljótan „and handbolta“ sem enginn vildi horfa á, og vísaði þar til sjö á sex sóknarleiks Austurríkismanna.
„Enginn vill horfa á svona handbolta“
Orðalagið ekki í lagi
„Ég vona að hann átti sig sjálfur á því að orðalag hans var ekki í lagi. Ef einhver af leikmönnum okkar telur sig enn þurfa á aukalegri hvatningu að halda ætti sá hinn sami að horfa aftur á myndskeiðið.
Þá finnur viðkomandi þessa aukalegu hvatningu til þess að leggja sig 100% fram. Þetta snýst meira um orðavalið. Stundum talar maður ekki með réttum hætti um andstæðing sinn. En okkur gæti ekki verið meira sama.
Ef þetta hjálpar okkur að vinna leikinn er mér slétt sama,“ sagði Constantin Möstl, markvörður Austurríkis, í samtali við Handball World.
Stingur í íþróttamannshjartað
Mikola Bilyk, liðsfélagi Wolffs hjá THW Kiel, sagðist hafa rætt við hann á liðshóteli beggja þjóða í Silkeborg í Danmörku og þeir félagar hlegið að ummælum Wolffs.
„Þetta stingur samt í íþróttamannshjartað. Ég held að við munum bregðast við með réttum hætti á morgun,“ sagði Bilyk við Handball World í gær.
Þýskaland, sem Alfreð Gíslason þjálfar, og Austurríki mætast klukkan 19:30 í Herning í kvöld.





