Keppni hófst á nýjan leik í Olísdeild kvenna síðasta laugardag. Handboltahöllin, vikulegur þáttur um handbolta, hóf þar með göngu sína aftur eftir jólaleyfi. Á mánudagskvöld var farið yfir viðureignir 12. umferðar Olísdeildar kvenna og frábæra frammistöðu Söndru Erlingsdóttur og Birnu Berg Haraldsdóttur í 23:20 sigri ÍBV á Haukum í Vestmannaeyjum.
„Að skora 18 af 23 mörkum er vel af sér vikið,“ sagði þáttastjórnandinn Hörður Magnússon. Ásbjörn Friðriksson, annar sérfræðinga Handboltahallarinnar, játti því.
„Það fer eiginlega allt í gegnum þær tvær. Sandra er náttúrlega búin að vera frábær í allan vetur og Birna í raun líka en skotin hjá Birnu og skotógnin af henni, hún er orðin svakalega góð. Þetta eru þvílík mörk sem hún er að skora,“ sagði Ásbjörn.
Nánar er fjallað um frammistöðu Birnu og Söndru í myndskeiði hér fyrir ofan.



