Keppni hófst á nýjan leik í Olísdeild kvenna síðasta laugardag. Handboltahöllin, vikulegur þáttur um handbolta, hóf þar með göngu sína aftur eftir jólaleyfi. Á mánudagskvöld var farið yfir viðureignir 12. umferðar Olísdeildar kvenna og öflugan varnarleik KA/Þórs í 23:21 sigri á ÍR í KA heimilinu á Akureyri á laugardag.
Rakel Dögg Bragadóttir, annar sérfræðinga Handboltahallarinnar, var sérstaklega hrifin af Susanne Denise Pettersen, Sólveigu Láru Kristjánsdóttur og Önnu Þyrí Halldórsdóttur.
Búnar að ná stöðugleika varnarlega
„Þær eru gríðarlega öflugar. Sóknarleikurinn hjá KA/Þór dettur niður í þessum leik en það sem þær gera vel er að þær halda varnarleiknum góðum allan tímann. Þar vil ég sérstaklega taka út þær tvær, Susanne og Sólveigu Láru, en líka Önnu Þyrí.
Hún er algjörlega frábær bakvörður. Það er það sem mér hefur fundist KA/Þór verið að gera gríðarlega vel í vetur. Þær eru búnar að ná stöðugleika varnarlega. Vissulega eitt og eitt slæmt tap en varnarleikurinn er mjög þéttur, sagði Rakel Dögg.
Nánar er fjallað um leik KA/Þórs og ÍR í myndskeiði hér fyrir ofan.
ÍR tekur á móti ÍBV í Olísdeild kvenna klukkan 18 í kvöld í Skógarseli.




