„Það er mikill uppgangur og meðbyr hjá félaginu í heild sem skýrist einna helst í því að allir eru að róa í sömu átt óháð íþróttagrein,“ segir Jón Gunnlaugur Viggósson, yfirþjálfari handknattleiksdeildar Víkings í samtali við handbolta.is.
Jón Gunnlaugur segir yngri flokka starfið í handboltanum blómsta um þessar mundir. „Annað árið í röð er 20% fjölgun iðkenda. Það er ýmislegt sem hefur gert þennan uppgang mögulegan. Fyrir það fyrsta er mikið af góðu fólki í stjórn Víkings, meistaraflokks- og í barna- og unglingaráði sem saman hefur lyft grettistaki.
Í öðru lagi erum við með frábæra yngriflokkaþjálfara en allir þjálfarar sem þjálfuðu hjá okkur í yngriflokkastarfinu í fyrra eru áfram í ár, sem lýsir kannski þeim góða anda og stöðugleika sem ríkir hjá félaginu,“ segir Jón Gunnlaugur og undirstrikar að þrátt fyrir að mikið verk hafi verið unnið sé enn talvert verk fyrir höndum. Mikilvægt sé hinsvegar að leggja sterkan grunn að framtíðinni.
„Það er samt síður en svo að við séum södd eða sátt, við erum rétt að byrja, krefjandi og mikil vinna sem er framundan við að koma félaginu á þann stað sem það á heima.“
Nýjungar vekja athygli
Víkingur byrjaði fyrst félaga með 9. flokk karla og kvenna í handbolta í fyrra en sá flokkur er fyrir þau allra yngstu, börn á leikskólaaldri. Þessi frumraun gafst afar vel, að sögn Jóns Gunnlaugas og hafa önnur félög nýtt sér þetta. Má þar nefna FH, Stjörnuna og HK. „Við erum svo með fleiri járn í eldinum til að efla okkar starf,“ segir Jón Gunnlaugur og bætir við.
Taka yfir starfið í Safamýri
„Víkingur mun á næstu árum taka alfarið yfir íþróttastarfinu í Safamýri. Félagið er nú þegar byrjað með yngstu flokkana, 8. flokk karla og kvenna í handbolta og 7. flokk karla og kvenna í fótbolta. Það er sérstök staða, að rótgróið félag eins og Fram, sé að færa sig um set. Þessi innleiðing, sem er í raun stýrt af öllum einingum félagins, hefur gengið mjög vel. Mjög spennandi fyrir okkur að færa út kvíarnar þar sem Víkingur tilheyrir núna mun stærra hverfi,“ segir Jón Gunnlaugur Viggósson, yfirþjálfari handknattleiksdeildar Víkings.