- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Martröðin í Karl-Marx Stadt 1974 – endurtekur sig!

Ólafur H. Jónsson skorar mark í landsleik 1974.
- Auglýsing -

Leikmenn íslenska landsliðsins í handknattleik hafa einu sinni áður upplifað martröð svipaða og á EM í Búdapest í Ungverjalandi, þar sem Kínaveiran herjar á leikmenn og ástandið hjá mörgum liðum sem taka þátt í Evrópumótinu er þannig, að það er ekki spurning hvort að fleiri leikmenn smitast, heldur hvenær!


Fyrir 48 árum fóru leikmenn Íslands í gegnum mikla martröð, sem kostaði þá mikið þrek. Allir nema þrír í landsliðshópi veiktust; fengu flensu sem lagði þá í rúmið. Þeir sem sluppu við flensuna voru Axel Axelsson, Fram, Guðjón Magnússon, Víkingi og Ólafur Benediktsson, Val.

Undanþága veitt í verkfalli

Það var mikill hugur í mönnum fyrir HM, en þá settu verkföll strik í reikninginn og fékk HSÍ þá undanþágu hjá Verslunnarmannafélagi Reykjavíkur og Verkamannafélaginu Dagsbrún fyrir afgreiðslu flugvélar, sem flutti landsliðshópinn til Ósló í Noregi.

Axel Axelsson, veiktist ekki og lék aðalhlutverkið á HM.


Það var stemming í kringum landsliðið, sem gerði jafntefli við Ungverja í Laugardalshöllinni 21:21 og lögðu þá síðan í fyrsta skipti að velli, 22:20. Ólafur H. Jónsson, Val, fór þá á kostum – skoraði 7 mörk og Axel Axelsson, Fram, setti fimm mörk.

Léku Norðmenn grátt

Eftir hinn frækilega árangur gegn Ungverjum fór landsliðið að æfa tvisvar á dag undir stjórn Karls G. Benediktssonar, landsliðsþjálfara. Það jók heldur betur á bjartsýnina þegar „Strákarnir okkar“ léku Norðmenn grátt í æfingaleik í Ósló þremur dögum fyrir HM, 21:16. Sóknarleikur Íslands var svo góður, að Norðmenn stóðu agndofa, en strákarnir náðu mest tíu marka forskoti, 18:8 og síðan 19:9. Axel lék þá við hvern sinn fingur; skoraði 8 mörk og átti góðar stoðsendingar, sem gáfu mörk.

Karl var bjartsýnn

Þegar komið var til Karl-Marx Stadt (nú Chemnitz) í Austur-Þýskalandi daginn fyrir fyrsta leik; 27. febrúar, sagði Karl, þjálfari, á blaðamannafundi, að hann væri bjartsýnn og reiknaði með sigrum á Tékkum og Dönum, en Vestur-Þjóðverjar yrðu erfiðir viðureignar, en ekki ósigrandi.

Skjótt skipast veður í lofti

Skjótt skipuðust veður í lofti og það fór að síga á ógæfuhliðina. Ekki var það óttinn við andstæðingana sem angraði landsliðshópinn, heldur flensa sem herjaði á leikmenn en flestir þeirra voru komnir með beinverki og kvef á leikdegi; gegn Tékkóslóvakíu. Sjö leikmenn voru orðnir veikir og þegar yfir lauk sluppu aðeins þrír leikmenn við flensuna; Axel, Guðjón Magnússon, Víkingi og Ólafur Benediktsson, Val.


Það kom í ljós að leikmenn höfðu verið búnir að fá flensuna áður en haldið var frá Íslandi. Það þótti ekki þorandi á leikdegi að gefa leikmönnum lyf, þar sem óttast var að þeir myndu falla á lyfjaprófi. Leikmenn fengu aftur á móti vítamínsprautur.

Mættu til leiks með háan hita

Tveir leikmenn voru rúmliggjandi með 40 stiga hita, er leikið var gegn Tékkóslóvakíu; Ólafur H. og Gísli Blöndal, Val. Karl, landsliðsþjálfari, var með 39 stiga hita er hann stjórnaði liðinu, en nokkrir leikmenn voru með háan hita er þeir léku, Gunnsteinn Skúlason, Val, og Hjalti Einarsson, markvörður FH, sem lagðist eftir leikinn.


Tékkar unnu öruggan sigur, 25:15, gegn „veiku“ liði Íslands. Þá töpuðust leikirnir gegn V-Þýskalandi 16:22 og Danmörku 17:19.

Samvinna vakti athygli

Axel Axelsson vakti mikla athygli; skoraði 18 mörk og var í hópi markahæstu leikmanna eftir riðlakeppnina, þrjá leiki. Samvinna hans og Björgvins Björgvinssonar, Fram (10 mörk), vakti mikla athygli og hrifningu áhorfenda.

Sýklahernaður

Ólafur H. sagði eftir HM, að ferðin til Austur-Þýskalands hafi verið frá upphafi eitt slys; sýklahernaður! Ólafur lék aðeins leikinn gegn Dönum, skoraði eitt mark.

Karl G. Benediktsson, landsliðsþjálfari í handknattleik árið 1974.


Karl G. Benediktsson sagði að þátttakan í HM hafi verið sorgleg uppákoma. „Ef allt hafi verið eðlilegt hefðum við náð langt. Við vorum með frábæra einstaklinga og liðsheildin var sterk. Leikmennirnir gátu tætt í sundur varnir með leikfléttum, sem voru góðar og árangusríkar. Það kom í ljós í leikjunum gegn Ungverjum og Norðmönnum fyrir HM.“


Aðrir í landsliðshópnum, sem hafa ekki verið nefndir, voru: Gunnar Einarsson, Haukum, markvörður, Einar Magnússon, Víkingi, Auðunn Óskarsson, FH, Viðar Símonarson, FH, Gunnar Einarsson, FH, Geir Hallsteinsson, Göppingen, Sigurbergur Sigsteinsson, Fram og Hörður Kristinsson, Ármanni.


Rúmenar urðu heimsmeistarar í A-Þýskalandi; unnu A-Þjóðverja í úrslitaleik 14:12. Tékkar urðu í sjötta sæti, Danir í áttunda og Vestur-Þjóðverjar í níunda sæti.

Sigmundur Ó. Steinarsson, blaðamaður, er reyndasti íþróttafréttamaður landsins. Hann byrjaði á Tímanum árið 1970 og vann eftir það einnig á Vísi, DV, Morgunblaðinu og mbl.is þar sem hann var fréttastjóri íþrótta í um áratug. Auk skrifa sinn í dagblöð er Sigmundur höfundur margra bóka um knattspyrnu og handknattleik sem geyma ómetanlegan fróðleik um sögu íþróttanna hér á landi.

Sigmundur nýtur nú eftirlaunaáranna með Maríu sinni. Handbolti.is er svo lánsamur að hafa fengið Sigmund til liðs við sig. Hann mun af og til á næstu vikum og mánuðum miðla með lesendum úr ómetanlegum sagnabrunni sínum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -