- Auglýsing -
Í dag er þriðji leikdagur á EM kvenna. Þá fer fram önnur umferðin í B- og D-riðlum ásamt því að fyrirhugað er að leikur Hollendinga og Serba fari fram en honum var frestað í gær. Hér fyrir neðan er farið yfir helstu staðreyndir um leikina þrjá sem hefjast klukkan 15 og 17.15. Síðar í dag verður fjallað um kvöldleikina tvo en til þeirra verður flautað klukkan 19.30.
D-riðill
Pólland – Rúmenía | kl 15.00 | Beint á RÚV
- Sigur í þessum leik eykur möguleika þess liðs að komast í milliriðla til muna.
- Pólland hefur tapað síðustu 10 leikjum sínum á EM og síðasti sigurleikur þeirra var gegn Rússum fyrir sex árum.
- Rúmenska liðið þarf á meira framlagi frá Cristinu Neagu að halda í þessum leik en hún skoraði aðeins 4 mörk úr 14 skotum gegn Þýskalandi í 1. umferð.
- Juliya Dumanska markvörður rúmenska liðsins varði mest allra markmanna í 1. umferðinni en hún varði alls 15 skot eða um 43% af þeim skotum sem hún fékk á sig.
- Þrátt fyrir þessa staðreynd hefur Denisa Dedu markvörðu verið kölluð inní hópinn en Ana Maria Ticu þarf að fá sér sæti uppí stúku í hennar stað.
- Liðin hafa mæst fjórtán sinnum áður. Rúmenar hafa sigrað sjö sinnum, Pólland unnið í fimm skipti, tvisvar hefur orðið jafntefli.
Þýskaland – Noregur | kl. 17.15 | Beint á RÚV2
- Norska landsliðið leikur sinn 100. leik í lokakeppni EM í dag. Það hefur unnið 80 leiki af þessum 99 til þessa, sem gerir um 80,8% sigurhlutfall.
- Nora Mörk og Henny Reistad voru markahæstar í norska liðinu í fyrsta leiknum en þær skoruðu báðar 6 mörk.
- Emily Sando markvörður norska liðsins leikur með þýska liðinu Bietigheim og hún mun mæta 6 liðsfélögum sínum í leiknum í dag.
- Þar sem bæði liðin unnu sína leiki í 1. umferð mun sigurvegarinn úr þessum leik tryggja sér sæti í milliriðlum óháð úrslitum úr hinum leik riðilsins.
- Í þeim 12 leikjum sem þjóðirnar hafa mæst áður þá hafa Norðmenn unnið níu þeirra.
B-riðill
Tékkland-Rússland | kl 17.15 | Beint á EHFTV.com
- Rússar unnu sinn leik í 1.umferðinni 31-22 gegn Spánverjum á meðan Tékkar töpuðu sínum leik 27-23 gegn Svíum.
- Markaskorun dreifðist á marga leikmenn Rússa í leiknum gegn Spáni en það voru alls 12 leikmenn sem skoruðu í þeim leik og enginn þeirra var með fleiri en 4 mörk.
- Tveir leikmenn stóðu uppúr hjá Tékkum í fyrstu umferðinni. Petra Kudlackova varði 13 skot í markinu, þar af fjögur vítaköst. Marketa Jerabkova var markahæst hjá þeim en hún skoraði 8 mörk.
- Tékkland vann Rússland síðast árið 1994. Eftir það hefur rússneska liðið unnið alla fjóra leikina sem þjóðirnar hafa mæst í.
- 17 mörk sem Rússar skoruðu í leiknum 1994 er ennþá lægsta markaskor liðsins í einum leik.
- Tékkar hafa ákveðið að kalla nýjan leikmann inní hópinn fyrir þennan leik. Hægri skyttan Silvie Polaskova kemur inní hópinn en vinstri hornamaðurinn Adela Stiskova þarf að yfirgefa hópinn.
Síðar í dag mun handbolti.is fara yfir leikina sem hefjast klukkan 19.30. Það eru viðureignir Spánar og Svíþjóðar í B-riðli og Hollands og Serbíu í C-riðli.
- Auglýsing -