- Auglýsing -
„Þetta var alls ekki nógu gott hjá okkur og við erum vonsviknir út í okkur sjálfa vegna þess að öll þessi tæknimistök sem við gerðum fór með leikinn fyrir okkur,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson næst markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í tapleiknum við Portúgal á HM í kvöld, 25:23, þegar handbolti.is hitti hann. Sigvaldi Björn lék í hægra horninu í síðari hálfleik og skoraði fjögur mörk í fimm skotum.
„Við gáfum þeim alltof oft boltann á einfaldan hátt sem færði portúgalska liðinu hvert markið á fætur öðru á auðveldan hátt. Ef mistökin hefðu verið færri þá hefðum við haft þetta. Því miður náðum við aldrei góðu flæði í leikinn til viðbótar við að alltof mörg góð færi fóru forgöðrum,“ sagði Sigvaldi Björn ennfremur.
„Okkur tókst heldur ekki af refsa portúgalska liðinu með mörkum eftir seinni bylgju. Þegar sóknarleikurinn er svona slæmur þá munar um hvert auðvelda markið sem við getum náði í.
Varnarleikurinn var mjög góður. Þeir skoruðu ekki nema 25 mörk en samt fengu þeir alltof mörg hraðaupphlaup. Í næstu leikjum verðum við að fá meiri hraða í leik okkar og fækka mistökunum,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson í samtali við handbolta.is á leikvellinum í Kaíró í kvöld.
- Auglýsing -