„Spilamennskan hjá okkur var mjög góð í leikjunum þótt hér og þar megi finna eitt og annað sem hefði mátt gera betur. Hvað sem öllu líður þá komumst við áfram í sextán liða úrslit á mjög sannfærandi hátt í afar jöfnum riðli,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Íslandsmeistara Vals í samtali við handbolta.is í morgun.
Hvert er framhaldið í Evrópudeildinni?
Valur lauk riðlakeppni Evrópudeildarinnar í gærkvöld með sigri á sænsku meisturunum Ystads IF HF á útivelli, 35:33, og hafnaði í þriðja sæti B-riðils keppninnar með jafn mörg stig og Ystads sem varð í öðru sæti. Ljóst var fyrir leikinn í Ystad að Valsmenn væru með tryggt sæti í 16-liða úrslitum keppninnar. Aðeins lék vafi á hvort Valur hreppti annað, þriðja eða fjórða sæti riðilsins og hver yrði andstæðingur í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar.
Rendum blint í sjóinn
Valur fékk 11 stig af 20 mögulegum og er með 10 mörk í plús þegar upp er staðið. „Við litum vel í út leikjunum og stóðumst alveg samanburð við andstæðinga okkar. Fyrirfram rendum við blint í sjóinn hvar við stæðum en útkoman er mjög góð.
Hefur gefið okkur mikið
Þátttaka okkar og frammistaðan sýndi að við áttum og eigum heima í þessari keppni sem verður vonandi til þess að áfram verður haldið á þeirri braut að vera með. Allt saman hefur þetta gefið strákunum í liðinu mjög mikið og einnig félaginu Val. Þetta hefur allt verið frábært hingað til,“ sagði Snorri Steinn.
Þrjár vikur í næsta leik
Þrjár vikur líða þangað til keppni í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar hefst. Valur mætir þýska liðinu Frisch Auf Göppingen. Fyrri viðureignin verður í Origohöllinni þriðjudaginn 21. mars og sú síðari viku síðar í suður Þýskalandi. Göppingen er bær skammt austur af Stuttgart.
Verðum að vera á okkar degi
„Göppingen er með alvörulið þótt það hafi ekki náð sér fyllilega á strik í þýsku deildinni í vetur af ýmsum ástæðum. Meðal annars hefur liðið gengið í gegnum þjálfara skipti á tímabilinu. Alveg óháð því hver andstæðingur okkar er í þessari keppni hverju sinni er ljóst að ef við erum ekki á okkar degi í leikjunum þá erum við í veseni,“ sagði Snorri Steinn sem hlakkar til komandi viðureigna í 16-liða úrslitum.
Stefnum að sigri
„Það verður bara gaman að fást við Göppingen og vonandi náum við upp svipaðri frammistöðu og að undanförnu. Vonandi getum við unnið heimaleikinn ef stemningin utan vallar sem innan verður svipuð og hún hefur verið. Við munum að sjálfsögðu nálgast leikina með því markmiði að vinna en um leið af ákveðinni auðmýkt. Við megum ekki fara fram úr okkur,“ sagði Snorri Steinn og bætti við:
Getur margt gerst á þremur vikum
„Við verðum líka að sjá til hver staðan verður hjá okkur þegar að leikjunum kemur. Náum við einhverjum af þeim sem eru meiddir í dag inn í hópinn fyrir leikina og hvernig verður ástandið á þeim sem eru þegar heilir? Framundan eru tveir leikir áður en að viðureignunum við Göppingen kemur eftir þrjá vikur. Þangað til getur eitt og annað gerst. Vonandi verðum við á góðum stað þegar á hólminn verður komið,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is.