Landsliðsmaðurinn í handknattleik, Arnar Freyr Arnarsson, verður í herbúðum þýska félagsins MT Melsungen í ár til viðbótar, til loka keppnistímabilsins vorið 2024. Þetta staðfesti Arnar Freyr við handbolti.is í morgun. Hann verður þá búinn að vera með liði félagsins í fjögur ár.
Arnar Freyr gekk til liðs við MT Melsungen sumar 2020 og skrifaði undir þriggja ára samning með ákvæði um eins árs framlengingu ef áhugi væri fyrir hendi af beggja hálfu. Hvorugur aðili samningsins sló hendinni á móti ári til viðbótar. Arnar Freyr er og hefur verið einn af traustari varnarmönnum MT Melsungen auk þess að vera skæður línumaður.
Áður en Arnar Freyr fór út í atvinnumennsku 2016 lék hann með Fram. Arrnar Freyr var í þrjú hjá IFK Kristianstad í Svíþjóð og í ár í herbúðum GOG í Danmörku áður enn hann fluttist til Þýskalands covidsumarið 2020.
Arnar Freyr hefur leikið 81 landsleik og hefur tekið þátt í öllum stórmótum íslenska landsliðsins frá 2017. Hann er í hópnum sem mætir Ísrael ytra og Eistlandi í Laugardalshöll 27. og 30. apríl í síðustu leikjum landsliðsins í undankeppni Evrópumótsins. Íslenska landsliðið kemur saman eftir helgi og heldur til Tel Aviv á mánudaginn. Æft verður á þriðjudag og miðvikudag áður en leikið verður við heimamenn á fimmtudag í Sports Arena “Drive-in”-keppnishöllinni góðu.
Auk Arnars Freys er Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður, einnig leikmaður MT Melsungen. Hann skrifaði undir nýjan samning við félagið í október.