„Svona leikir koma við og við. Eins og ég sagði við strákana fyrir leikinn í kvöld. Svona leikir eru ástæðan fyrir því að við erum að djöflast í þessu öllu saman mánuðum saman. Það er eins gott að njóta þess að komast í þessa stöðu. Meiri handbolti, meira gaman,“ sagði Sverrir Eyjólfsson þjálfari Fjölnis í samtali við handbolta.is í gærkvöldi eftir ævintýralegan leik liðsins við Víking í umspili Olísdeildar karla í handknattleik. Fjölnir jafnaði metin í einvíginu í leik þar sem ekki fengust úrslit fyrr en að loknum tveimur framlengingum, vítakeppni og bráðabana.
Sigur í bráðabana
Bergur Bjartmarsson, markvörður, og vítaskyttan Goði Ingvar Sveinsson tryggðu Fjölni sigur í bráðabana vítakeppninnar. Bjartmar með því að verja vítakast og Goði Ingvar fylgdi á eftir með því að skora úr vítakasti sínu.
Erum að læra
„Ég vil hrósa öllum strákunum fyrir andlegan styrk í að koma til baka hvað eftir annað í þessum leik. En við erum að læra og læra hratt. Þessu fylgja hinsvegar mjög erfiðir kaflar og við eigum það til að grafa okkur mjög djúpar holur,“ sagði Sverrir en Fjölnir hefur unnið tvo leiki í röð og jafnað metin í rimmunni, 2:2, í vinningum talið. Framundan er oddaleikur í íþróttahúsinu í Safamýri á sunnudaginn klukkan 14.
Gerum allt sem við getum
„Vissulega getur allt gerst en við erum klárlega litla liðið. Að öllu jöfnu á Víkingur að vinna á sunnudaginn. Við munum gera allt sem við getum til þess að skemma fyrir þeim.
Það eru reyndir menn innan Víkingsliðsins, menn eru jafnvel eldri en ég og hafa leikið leikið um langt árabil í meistaraflokki meðan ég er með stráka sem eru að stíga sín fyrstu skref.
Við mætum á sunnudaginn og gerum okkar besta. Kannski dugar það til sigurs, kannski ekki,“ sagði Sverrir Eyjólfsson þjálfari Fjölnis sem er á sínu fyrsta ári sem þjálfari meistaraflokksliðs.
Handbolti.is var í Dalhúsum í gærkvöld og var með textalýsingu frá þessum spennuþrungna leik í umspili Olísdeildar karla.