Piltalið Vals vann til silfurverðlauna í 15 ára flokki á Partille Cup mótinu í Svíþjóð í dag eftir eins marks tap fyrir danska liðinu HB Skandeborg 1 í æsispennandi úrslitaleik, 12:11. Staðan var jöfn eftir fyrri hálfleik, 6:6.
Úrslitaleikurinn var hnífjafn og æsilega spennandi fyrir vikið. Úrslitin réðust á síðustu sekúndum í rjómablíðu í Partille en skipst hefur á með skini og skúrum síðustu daga utan vallar sem innan.
Tap og kæra
Valsliðið tapaði í 16-liða úrslitum mótsins fyrir sænsku liði. Leikurinn var kærður og átti að leika á ný í morgun. Andstæðingurinn sá sitt óvænna og mætti ekki til leiks. Komst Valur þar með áfram í átta lið úrslit þar sem sigur vannst og einnig í undanúrslitum.
Sjá má myndskeið af sigurmarkinu og fögnuði eftir sigurinn í undanúrslitum hér fyrir neðan.