Enn og aftur hefur staðfest hversu framarlega Ísland er í handknattleik á alþjóðlegum vettvangi, ekki síst í karlaflokki. Handknattleikssamband Evrópu, EHF, birti í gær styrkleikalista 18 ára landsliða karla. Á honum er Ísland í sjötta sæti. Við gerð listans er litið aftur til árangurs landsliða í undan- og aðalkeppni Evrópumóta frá 2018 til og með 2022.
Árin fjögur sem miðað er við eru rökrétt framhald af árangri mörg ár aftur í tímann.
Ísland hefur jafnan verið í fremstu röð og unnið til verðlauna eða verið hársbreidd frá verðlaunum á mörgum mótum undanfarna áratugi.
Allt hefur þetta átt sinn þátt í að karlalandsliðið hefur verið í fremstu röð um mjög langt árabil og m.a. sagt í gamni og alvöru að handknattleikur sér þjóðaríþrótt Íslendinga.
Metnaðarfullir þjálfarar
Ástæða árangursins er m.a. að mikill metnaður hefur lengi ríkt við þjálfun handknattleiksfólks hér á landi. Metnaður handknattleiksþjálfara er aðdáunarverður sem lýsir sér m.a. í að þeir eru alltaf að verða betur menntaðir og leita ráða hver hjá öðrum. Ekki má gleyma þeim sem starfa bak við tjöldin og annast okkar unga afreksfólk.
Bjóða birginn
Metnaðurinn hefur skilað sér í æ ríkari mæli til yngri flokka kvenna á síðustu árum sem m.a. lýsir sér í frábærri kynslóð stúlkna sem í sumar skipar U19 ára landslið kvenna. Hópur sem haldið hefur mestan part saman síðustu sumur, eflst við hverja raun og býður nú hvaða landsliði á sínum aldri óhikað birginn. Nokkuð sem hefði e.t.v. verið óhugsandi fyrir nokkrum árum.
Keðjuverkandi áhrif
Frábær árangur núverandi U19 ára landsliðs kvenna á síðustu árum hafði þau keðjuverkandi áhrif að U17 ára landslið kvenna öðlaðist þátttökurétt á Evrópumótinu sem fram fer í næsta mánuði. Ekki hefur það oft gerst áður að Ísland hafi átt tvö yngri landslið kvenna í A-keppni stórmóts sama sumarið.
Á HM kvenna
Framfarir og metnaður hefur þar að auki skilað A-landsliði kvenna keppnisrétti á heimsmeistaramótinu sem fram fer síðar á árinu. Vissulega fékk HSÍ boð um þátttöku. Gleymum því hinsvegar ekki að boðið hefði aldrei borist ef ekki væri fyrir mikla grósku í handknattleik kvenna hér á landi.
Eins og undanfarin sumur hefur verið afar ánægjulegt og um leið spennandi að fylgjast með gróskunni í kringum yngri landsliðin.
Að vera fluga á vegg
U21 árs landsliðið vann til bronsverðlauna á heimsmeistaramótinu sem fram fór á dögunum. Handbolti.is átti þess kost að fylgjast með liðinu í návígi síðustu daga mótsins í Berlín, vera á stundum eins og fluga á vegg. Metnaðurinn og einbeiting sem skein hjá leikmönnum, þjálfurum og starfsmönnum jafnaðist svo sannarlega á við það sem lengi hefur ríkt í kringum A-landslið karla.
Dýrmætt skref
U19 ára landslið kvenna stóð sig með prýði á EM í Rúmeníu og innsiglaði sæti á HM 20 ára landsliða á næsta ári. Þannig lengdi þessi mjög lofandi hópur veru sína í alþjóðlegri keppni ungmennalandsliða um eitt ár. Nokkuð sem er afar dýrmætt.
Ekki er slegið slöku við
U17 ára landslið karla náði þeim frábæra árangri að hafna í fimmta sæti á Opna Evrópumótinu í Gautaborg í upphafi þessa mánaðar. Ekki verður þar við látið sitja. Á morgun heldur liðið til keppni á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem hefst í Maribor í Slóveníu á mánudaginn.
Tvö stórmót í ágúst
U19 ára landslið karla tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem hefst í Króatíu 2. ágúst. Um líkt leyti verður U17 ára landslið kvenna í eldlínunni á Evrópumóti A-landsliða í Svartfjallalandi.
Sumavertíðin er rétt hálfnuð. Svo segja menn að ekkert sé um að vera í handknattleik á sumrin. Sumrin eru sennilega einn mikilvægasti tíminn í áframhaldandi vexti íslensks handknattleikleiks. Á sumrin vex fiskur um hrygg.
Ívar Benediktsson, [email protected]