„Þessi leikur var okkur mikil vonbrigði, satt að segja þá lékum við alls ekki nógu vel. Þetta er því miður einn allra lélegasti leikur sem þetta lið hefur leikið, jafnt varnarlega sem sóknarlega. Við gerðum alltof mörg mistök,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U19 ára landsliðs karla í handknattleik eftir tveggja marka tap, 29:27, fyrir Tékkum í upphafsleik sínum á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Króatíu í dag.
Byrja vel í báðum hálfleikum
„Við vorum ágætir framan af leiknum en síðustu 10 til 12 mínúturnar í fyrri hálfleik þá komust Tékkar á bragðið og komust á lagið. Okkur tókst að minnka muninn í tvö mörk fyrir hálfleikinn, 12:10. Síðari hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri. Við vorum mun sterkari og vorum mest með fjögurra marka forskot, 22:18, og áttum möguleika á að komast fimm mörkum yfir rétt eftir miðjan síðari hálfleik. Þess í stað þá jafna Tékkar á nokkurra mínútna kafla. Eftir það var leikurinn í járnum. Segja má að hlutirnir hafi aðeins fallið með Tékkum í lokin á sama tíma og við fórum illa með góð færi,“ sagði Heimir og bætti við.
Endurspeglaði leikinn
„Lokakaflinn hjá okkur endurspeglaði leikinn í heild. Við gerðum alltof mörg mistök, ekki síst sóknarlega en einnig í vörninni. Við köstuðum boltanum oft illa frá okkur, vorum sjálfum okkur verstir,“ sagði Heimir og viðurkenndi að tapið væri talsvert högg fyrir liðið sem hafi stefnt á sigur í leiknum og talið sig vera fullfært um það áður en flautað var til leiks. Undirbúningur hafi verið góður og menn staðráðnir að leika til sigurs.
Tapið er högg
„Tapið er högg fyrir okkur en að sama skapi erum við hvergi bangnir. Við getum hinsvegar ekkert annað gert en snúið við blaðinu og mæta til leiks gegn Japan á morgun af fullum krafti og koma okkur með sigri í úrslitaleik við Egypta um sæti í 16-liða úrslitum á laugardaginn í síðustu umferð riðlakeppninnar. Hinsvegar er ljóst að til þess verða úrslit annarra leikja að falla aðeins með okkur vegna tapsins í dag,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U19 ára landsliðs karla við handbolta.is í dag.