Árni Bragi Eyjólfsson tryggði Aftureldingu sigur á Gróttu í UMSK-mótinu í handknattleik karla í viðureign liðanna í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld, 30:29. Sigurmarkið skoraði Árni Bragi fjórum sekúndum fyrir leikslok en aðeins fimm sekúndum áður hafði Jakob Ingi Stefánsson jafnað metin fyrir Gróttu. Gróttumenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna á allra síðustu sekúndum en Brynjar Vignir Sigurjónsson varði langskot frá miðju í þann mund sem leiktíminn rann út.
Annar sigur Mosfellinga
Þetta var annar sigur Aftureldingar á mótinu en í síðustu viku lögð Mosfellingar liðsmenn HK með sex marka mun. Um leið var þetta fyrsti leikur Gróttumanna á undirbúningstímabilinu. Liðið er mikið breytt frá síðasta tímabili. Ekki færri en sjö leikmenn hafa skipt um lið eða hætt og sjö aðrir komið í staðinn.
Jafn í síðari hálfleik
Sigurinn var Aftureldingarmönnum torsóttur. Þeir voru marki undir í hálfleik, 17:16, gegn baráttuglöðum lærisveinum Róberts Gunnarssonar. Lengi framan af síðari hálfleik var Grótta með frumkvæðið. Aftureldingarmönnum óx ásmegin á síðustu mínútunum.
Allir leikmenn beggja liða fengu að spreyta sig um lengri eða skemmri tíma í leiknum sem bar þess glögg merki að liðin eiga enn nokkuð í land með að spila sig saman.
Vantaði í bæði lið
Lúðvík Thorberg Arnkelsson lék ekki með Gróttu í kvöld. Hann er að jafna sig af meiðslum eins og Gunnar Dan Hlynsson sem bættist á ný í hóp Seltirninga í sumar.
Birkir Benediktsson og Bergvin Þór Gíslason voru borgaralega klæddir í stúkunni í Hertzhöllinni í kvöld. Birkir gekkst undir aðgerð á mjöðm í sumar og er á batavegi. Bergvin Þór er ennþá fjarri góðu gamni eftir að hafa farið í aðgerð á öxl á síðasta vetri.
Áhorfendur og dómarar
Fjöldi áhorfenda var á leiknum og ágæt stemning. Síðast en ekki síst er rétt að geta þess að feðgarnir Bóas Börkur Bóasson og Bjarki Bóasson dæmdu leikinn vel.
Mörk Gróttu: Jakob Ingi Stefánsson 8, Ágúst Ingi Óskarsson 6, Elvar Otri Hjálmarsson 5, Ari Pétur Eiríksson 2, Antoine Óskar Pantano 2, Ágúst Emil Grétarsson 2, Kári Kvaran 2, Andri Fannar Elísson 1, Einar Baldvin Baldvinsson 1.
Varin skot: Shuhei Narayama 6, Einar Baldvin Baldvinsson 2.
Mörk Aftureldingar: Árni Bragi Eyjólfsson 7, Þorsteinn Leó Gunnarsson 5, Blær Hinriksson 4, Leó Snær Pétursson 4, Andri Þór Helgason 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Þorvaldur Tryggvason 2, Ihor Kopyshynskyi 1, Jakob Aronsson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 9, Jovan Kukobat 3.
Næsti leikur í UMSK-móti karla fer fram á laugardaginn þegar Grótta og Stjarnan mætast í Hertzhöllinni klukkan 14.