„Við erum að renna upp að Keflavíkurflugvelli. Eigum flug klukkan þrjú beint til Porto með áætlunarflugi Play. Við fljúgum síðan beint heim á sunnudaginn. Ferðalagið verður ekki betra,“ sagði Sigurður Bragason þjálfari bikarmeistara ÍBV þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í hádeginu. Framundan eru tveir leikir hjá ÍBV gegn portúgalska handknattleiksliðinu Colegio de Gaia í fyrstu umferð Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik.
Fyrri viðureignin fer fram síðdegis á morgun en sú síðari á laugardaginn í Vila Nova de Gaia við norðaustur strönd Portúgal, nánast í túnfætinum á Porto.
Situr í efsta sæti
Colegio de Gaia hefur farið afar vel af stað í portúgölsku úrvalsdeildinni og situr í efsta sæti með níu stig að loknum þremur umferðum. Þrjú stig eru gefin fyrir sigur í hverjum leik. Colegio de Gaia hefur til þessa ekki mætt einhverjum af sterkari liðum deildarinnar eins og ríkjandi meisturum Benfica, Madeira liðinu sem lagði ÍBV í fyrra eða Sao Pedro Sul.
Telur möguleikana góða
„Við förum út með það markmið að vinna og komast áfram í næstu umferð. Ég tel það raunhæft markmið. Það sem ég hef séð til liðsins af upptökum frá leikjum þess á síðustu vikum þá tel ég okkur eiga alla möguleika,“ sagði Sigurður.
„Mér sýnist liðið til dæmis ekki vera eins sterkt og Madeira sem við mættum á síðasta ári. Ætli möguleikarnir okkar séu ekki 60/50 eins og Eggert Þorleifsson orðaði það um árið,“ sagði Sigurður léttur í bragði enda framundan þrír góðir haustdagar með 25 gráðu hita.
„Leikmenn Colegio de Gaia eru snöggir og liprir og erfiðir viðureignar. Ég reikna með að liðið leiki framliggjandi vörn. Það verður krefjandi verkefni að fást við þá,” sagði Sigurður ennfremur.
Allir leikmenn liðsins eru portúgalskir ef marka má upplýsingar á heimasíðu Handknattleikssambands Evrópu.
Hanna fjarri góðu gamni
Með einni undantekningu getur Sigurður teflt fram sínu sterkasta liði. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er ennþá frá keppni eftir aðgerð sem hún gekkst undir í sumar.
Fyrri viðureignin fer fram klukkan 18.30 á morgun sú síðari klukkan 17 á laugardag. Ef upplýsingar berast um streymi frá leikjunum segir handbolti.is frá því.