Evrópumeistarar SC Magdeburg unnu mikinn baráttusigur á Wisla Plock í Póllandi í kvöld í fjórðu umferð B-riðils Meistaradeildar Evrópu í handknattleik, 28:26, eftir að hafa verið lentir marki undir upp úr miðjum síðari hálfleik á afar erfiðum útivelli gegn miklum baráttuhundum.
Um tíma þegar sex mínútur voru til leiksloka eða þar um bil og Magdeburg var marki yfir, 24:23, þá missti liðið tvo leikmenn af leikvelli með hálfs mínútu millibili.
Þegar útlitið var orðið svart að þessu leyti þá varð einum leikmanni Wisla það á að kasta boltnum í höfuðið á Nikola Portner markverði Magdeburg. Við það fækkaði um einn í pólska liðinu og Magdeburg náði að halda sjó á erfiðum kafla með Felix Claar í aðalhlutverki. Ómar Ingi Magnússon kom Magdeburg yfir, 23:25, í þessari stöðu.
Þrátt fyrir ákafan vilja þá tókst leikmönnum Wisla ekki að jafna metin. Leikmenn Magdeburg léku af stillingu og yfirvegun og hirtu stigin tvö og hafa nú fjögur stig eftir fjóra leiki. Wisla er án stiga en hefur aðeins níu mörk í mínus þrátt fyrir fjögur töp.
Ómar skoraði fimm sinnum
Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk, öll úr vítaköstum. Einnig gaf hann þrjár stoðsendingar. Ómar Ingi lék með í sóknarleiknum á síðustu 10 mínútunum og var snjall og yfirvegaður að vanda. Janus Daði Smárason skoraði ekki mark. Sem fyrr segir var hinn sænski Claar frábær. Hann varð einnig markahæstur með 9 mörk og fjórar stoðsendingar.
Tin Lucin var markahæstur hjá Wisla með sex mörk.
Danska meistaraliðið GOG tapaði sínum fyrsta leik í riðlakeppni Meistaradeildar á leiktíðinni í heimsókn til Barcelona, 38:30.
Í A-riðli lagði PSG liðsmenn Eurofarm Pelister, 31:26, í París.