„Varnarleikur okkar var mjög góður og lagði grunn að sigri okkar,“ sagði Bjarni Fritzson þjálfari karlaliðs ÍR í samtali við handbolta.is í gær eftir mjög öruggan sigur liðsins á Þór, 33:24, í Skógarseli, heimavelli ÍR-inga. Leikurinn var hluti af keppni í Grill 66-deild. Með sigrinum er ÍR aðeins einu stigi á eftir Fjölni og Þór í toppbaráttu deildarinnar. Að sama skapi gekk möguleikinn á efsta sætinu Þórsurum úr greipum.
„Auk þess þá tókst okkur rúlla vel á leikmannahópum og halda góðum hraða í leiknum allan tímann. Ætli það ásamt varnarleiknum hafi ekki gert gæfumuninn,” sagði Bjarni ennfremur.
Skólar menn til
Bjarni sagði að verkefni sitt á tímabilinu væri fyrst og fremst að „skóla“ leikmenn til og byggja upp lið. Í svipinn væri hann ekki að horfa í stöðuna í deildinni.
„Við getum orðið mikið betri en við erum. Það er mín tilfinning. En hvenær það verður veit ég ekki. Vonandi í vetur. Ég sé breytingar, framfaraskref. Það tekur sinn tíma að venjast því að leika með meistaraflokki. Auk þess erum við að vinna í mörgum atriðum eins og til dæmis leikskipulagi sem á eftir að verða betra. Ég er ágætlega ánægður með stöðuna eins og staðan er.
Hvort við förum upp úr deildinni í vor eða ekki kemur bara í ljós. Ef við verðum nógu góðir til þess að fara upp þá gerist það, annars ekki,“ sagði Bjarni Fritzson þjálfari karlaliðs ÍR yfirvegaður að vanda í samtali við handbolta.is.
Nánar var fjallað um leikina sem fram fóru í Grill 66-deild karla í gær hér fyrir neðan.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
„Var hræðilegt hjá okkur frá upphafi til enda“