ÍBV innsiglaði sæti í 8-liða úrslitum Poweradebikarnum í handknattleik karla með sigri á Fram, 32:28, í skemmtilegum leik í Vestmannaeyjum í dag. Eftir kaflaskiptan leik þá tryggðu Eyjamenn sér sigurinn á síðustu 140 sekúndum viðureignarinnar. Á þeim tíma skoraði liðið fimm af síðustu sex mörkunum sem skoruð voru í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum að þessu sinni.
Fram var þremur mörkum yfir í hálfleik, 18:15. Reyndar byrjaði ÍBV afar vel og skoraði þrjú fyrstu mörkin áður en Framarar vöknuðu til lífsins og það heldur betur. Þeir réðu lögum og lofum fram að hálfleik með Reyni Þór Stefánsson og Arnór Mána Daðason í aðalhlutverkum.
Frábær innkoma Miskevich
Pavel Miskevich, markvörður, lék í marki ÍBV í síðari hálfleik. Hann kom með kraft og stemningu inn í liðið auk þess að verja allt hvað af tók til síðustu mínútu.
ÍBV jafnaði metin, 20:20, með marki Sigtryggs Daða Rúnarssonar út vítakasti. Á næstu mínútum virtust leikmenn ÍBV vera að ná völdum í leiknum. Þeir voru með byr í seglum og fjögurra marka forskot, 25:21, þegar leiktíminn var hálfnaður í síðari hálfleik. Framarar voru ekki tilbúnir að leggja árar í bát. Þeir náðu afar góðu áhlaupi og jöfnuðu metin, 27:27 þegar sjö mínútur voru eftir. Í mikilli spennu á næstu mínútum fóru Framarar illa að ráði sínu. Daníel Vieira kom ÍBV yfir, 28:27 fjórum mínútum fyrir leikslok.
Boltinn hrökk af dómaranum
Grabríel Martinez Róbertsson skoraði síðan 29. mark ÍBV rúmum tveimur mínútum fyrir leikslok. Aðdragandi þess var sérstakur. Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram, varði skot Arnórs Viðarsson, boltinn hrökk af Lárusi Helga í Ramunas Mikalonis dómara og þaðan til Gabríels sem lét ekki segja sér það tvisvar að skora 29. markið. Eftir þetta varði Miskevich eitt tíu skota sinna sem varð til þess að möguleikar Framara voru svo að segja úr sögunni.
Mörk ÍBV: Daniel Esteves Vieira 7, Kári Kristján Kristjánsson 5, Gabríel Martinez Róbertsson 5, Arnór Viðarsson 5, Breki Þór Óðinsson 4, Elmar Erlingsson 4, Dagur Arnarsson 1, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1/1.
Varin skot: Pavel Miskevich 10, 52,5% – Petar Jokanovic 5, 20,8%.
Mörk Fram: Ívar Logi Styrmisson 9/1, Reynir Þór Stefánsson 7, Stefán Orri Arnalds 5, Rúnar Kárason 3, Marko Coric 2, Marel Baldvinsson 1, Tryggvi Garðar Jónsson 1.
Varin skot: Arnór Máni Daðason 12/1, 32,4% – Lárus Helgi Ólafsson 3, 30%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.