Jürgen Schweikardt, þjálfari þýska handknattleiksliðsins Stuttgart, hefur greinst með kórónuveiruna eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá félaginu í morgun. Hann fékk niðurstöðu úr prófi á mánudag en mun hafa gengist undir það á laugardag.
Tveir íslenskir handknattleiksmenn leika með Stuttgart, Elvar Ásgeirsson og Viggó Kristjánsson en sá síðarnefndi gekk til liðs við félagið í sumar.
Leikmenn og starfsmenn liðsins hafa farið í sýnatöku eftir að tíðindin af Schweikardt bárust. Eru þeir beðnir um að halda sig til hlés meðan beðið er eftir niðurstöðum.
Til stendur að Stuttgart mæti Balingen á föstudag í undanúrslitum á æfingamóti sem staðið hefur yfir síðustu vikur. Hópurinn fer ennfremur í sýnatöku á laugardag en leikið verður til úrslita á móti á sunnudag.