- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Dagur tekur við Króötum – næstu vikur skipta mestu máli

Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Króata. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Dagur Sigurðsson var í morgun ráðinn landsliðsþjálfari Króata í handknattleik karla til næstu fjögurra ára. Hans fyrsta verkefni verður að tryggja króatíska landsliðinu sæti í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í sumar í forkeppni sem fram fer í Hannover í Þýskalandi 14. til 17. mars. Dagur, sem stendur á fimmtugu, er fyrsti útlendingurinn sem ráðinn er í starfið.

Dreymir um París

„Næstu tvær til þrjár vikur skipta mestu máli þessa stundina. Okkar draumur er að fara til Parísar,“ sagði Dagur á blaðamannfundi í Zagreb í morgun þegar tilkynnt var um ráðninguna. Ólympíuleikarnir fara fram í París í júlí og ágúst.

Dagur ætlar að nota helgina til þess að heyra í leikmönnum sem kom til greina í landsliðið fyrir forkeppnina og velja hópinn fljótlega eftir helgi. „Að sjálfsögðu vil ég hafa bestu leikmennina en mestu máli skiptir að hafa leikmenn sem eru tilbúnir að berjast og leggja sig alla fram,“ er haft eftir Degi á 24sata.hr.

Skammur tími til stefnu

Ekki eru nema 10 dagar þangað til króatíska landsliðið kemur saman til æfinga fyrir forkeppnina þar sem liðið mætir Alsír, Austurríki og Þýskalandi. Tveir farseðlar á Ólympíuleikana eru í boði í forkeppninni. Svo vill til að Dagur hefur einnig þjálfað landslið Austurríkis (2008-2100) og Þýskalands (2014-2017).

Á stall með þeim bestu

Dagur sagði á blaðamannafundinum í morgun að verkefni næstu ára væri að koma króatíska landsliðinu á sama stall og Danir, Frakkar og Svíar væru á. Um þessar mundir væri króatíska landsliðið á svipuðum slóðum og landslið Íslands og Noregs. Þess má geta að Noregur, Ísland og Króatía höfnuðu í 9., 10. og 11. sæti á EM sem lauk í janúar.


Snemma í febrúar láku út fréttir um að Handknattleikssamband Króatíu hefði rætt við Dag um að taka við starfi landsliðsþjálfara eftir að Goran Perkovac var sagt upp eftir Evrópumótið. Skömmu síðar tilkynnti japanska handknattleikssambandið að Dagur hafi sagt upp samningi sínum við sambandið, samningur sem var fram yfir Ólympíuleikana í sumar. Síðan hefur lítið spurst út samningamál Dags við Króata meðan samið var um starfslok Dags við japanska sambandið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -