Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, er sannkallaður Evrópuherforingi Íslands þessa dagana, en hann er á leið til Rúmeníu í næstu viku með hersveit sína; til að herja á herlið Steaua í Búkarest.
Óskar Bjarni er sá þjálfari, sem hefur náð bestum árangri með íslenska hersveit á vígvöllum vítt og breitt um Evrópu. Hersveitin hefur náð ótrúlegum árangri í vetur; 2023-2024 í Evrópubikarkeppninni, með því að fagna sigrum í öllum átta viðureignum sínum; í Litháen, Eistlandi, Úkraínu og Serbíu. Það hefur enginn herforingi afrekað áður með hersveitum sínum í Evrópukeppni.
Þess má geta að Óskar Bjarni hefur stjórnað Valssveitinni á þremur tímabilum í Evrópukeppninni, 2004-2008, 2016-2017 og 2023-2024. Hefur náð 61,1% árangri í 36 Evrópuleikjum, 20 sigrar – 4 jafntefli – 12 töp.
Hann hefur skotið Bogdan Kowalczyk, þjálfara Víkings, og Snorra Steini Guðjónssyni, Val, ref fyrir rass.
* Snorri Steinn náði 60% árangri með Val 2019-2023, en þá var Óskar Bjarni aðstoðarmaður hans. Valur lék 20 Evrópuleiki, vann 11, gerði tvö jafntefli og tapaði sjö leikjum.
* Bogdan náði 57% árangri með Víking á árunum 1978-1985, 22 leikir (12 – 1 – 9).
* Hilmar Björnsson, sem kom Val í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða gegn Grosswallstadt 1980, náði 50% árangri með Valsliðið 1976-1980 og 1984-85. Liðið lék 21 leik undir hans stjórn, vann tíu, tapaði tíu og gerði eitt jafntefli.
Alls hefur Óskar Bjarni komið að 56 Evrópuleikjum, sem þjálfari og aðstoðarþjálfari og hefur Valsliðið náð 60,7% árangri í þeim leikjum.
Óskar hefur ekki aðeins þjálfað Valsliðið eða verið aðstoðarþjálfari; fyrst með Jóni Kristjánssyni, þá Guðlaugi Arnarssyni og síðast Snorra Steini. Einnig hefur hann af og til verið í þjálfarateymi kvennaliðs Vals og þjálfað yngri flokka félagsins.
Einnig hefur Óskar Bjarni þjálfað karla og kvennalið Viborg í Danmörku og verið í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins; fyrst með Guðmundi Þórði Guðmundssyni og næst með Geir Sveinssyni og nú með Snorra Steini Guðjónssyni.
Óskar Bjarni, einn sigursælasti þjálfari Íslands, hefur verið gæfusamur og býr yfir gríðarlega mikilli reynslu. Valur varð bikarmeistari undir hans stjórn á laugardaginn, með sigri á ÍBV í úrslitaleik, 43:31. Þá stefnir Valur að Íslandsmeistaratitlinum í ár.
Margir ungir og sterkir leikmenn hafa komið fram undir stjórn Óskars Bjarna. Tveir þeirra eru synir hans; Arnór Snær (24 ára), sem leikur með Gummersbach sem lánsmaður frá Rhein-NeckarLöwen og Benedikt Gunnar (21 árs), sem lék á als oddi í úrslitaleik bikarkeppninnar á síðasta laugardag. Hann heldur í sumar til Noregs, þar sem hann mun leika með hinu öfluga liði Kolstad. Þeir bræður eru nýliðar í landsliði Íslands, sem leikur tvo landsleiki í Grikklandi í vikunni.