Þjóðverjar verða með handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í París í sumar. Þeir unnu Austurríkismenn, 34:31, í úrslitaleik um farseðil á leikana í síðustu umferð 2. riðils forkeppni leikanna í ZAG-Arena í Hannover í dag. Um leið er ljóst að Alfreð Gíslason verður áfram landsliðsþjálfari Þýskalands næstu þrjú árin.
Varnagli var sleginn þegar Alfreð gerði nýjan samning við þýska sambandið á dögunum um að ef landsliðinu tækist ekki að vinna sér sæti á Ólympíuleikunum öðlaðist nýi samningurinn ekki gildi.
Sitja eftir með sárt ennið
Austurríkismenn, sem veittu harða mótspyrnu í leiknum við Þjóðverja, sitja eftir með sárt ennið. Austurríki hefur ekki átt lið í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikum síðan í Berlín 1936.
Eins og kom fram í gær þá tryggðu Króatar, undir stjórn Dags Sigurðssonar, sér hitt Ólympíusætið sem í boði var í þessum forkeppnisriðli. Króatar mæta Alsírbúum í síðasta leik riðilsins kl. 15.45. Úrslitin skipta engu máli um niðurstöðu forkeppninnar.
Þýska landsliðið var með yfirhöndina frá upphafi til enda í ZAG-Arena í dag dyggilega studdir af um 9.000 áhorfendum. Forskotið var þrjú mörk að loknum fyrri hálfleik, 18:15, eftir að austurríska liðið hafði skorað tvö síðustu mörkin á lokamínútunni í kjölfar þess að þýsku leikmennirnir gerðu axarsköft.
Tveggja marka munur
Austurríkismenn minnkuðu muninn í tvö mörk hvað eftir annað á síðustu 10 mínútunum og léku maður á manni í vörn síðustu 150 sekúndurnar. Þeir fengu tækifæri að koma forskoti Þjóðverja niður í eitt mark í stöðunni, 31:29, þegar ein og hálf mínúta var eftir. Austurrísku leikmennirnir fóru illa að ráði sínu og misstu þar með af síðasta möguleikanum til að hleypa leiknum í uppnám.
Renars Uscins og Julian Köster skoruðu átta mörk hvor fyrir þýska landsliðið. Lukas Zerbe var næstur með sjö mörk.
Örvhenta skyttan Janko Bozovic var markahæstur í austurríska landsliðinu með sjö mörk. Mykola Bilyk og Sebastian Frimmel skoruðu fimm mörk hvor.
Forkeppni ÓL24, karlar: Leikir, úrslit, staðan
Hægt var að fylgjast með leik Austurríkis og Þýskalands í streymi.