Slóvenar fylgja Spánverjum eftir í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna úr fyrsta riðli undankeppninnar. Slóvenar tryggðu sér farseðilinn til Parísar í dag með sigri á landsliði Barein, 32:26, í þriðju og síðustu umferð 1. riðils í Granollers á Spáni. Aron Kristjánsson er þjálfari landsliðs Barein sem tapaði öllum viðureignum sínum í undankeppninni.
Bareinar, sem komust í átta liða úrslit handknattleiks Ólympíuleikanna í Tókýó sumarið 2021 undir stjórn Arons, verða ekki með á Ólympíuleikunum í sumar. Japanska landsliðið verður eini fulltrúi Asíu í karlakeppninni.
Slóvenar lögðu Barein og Brasilíu í undankeppninni í Granollers en steinlágu fyrir Spánverjum, 32:22, sem lék við Brasilíu síðdegis. Reyndar voru Slóvenar stálheppnir að vinna Brasilíumenn, 27:26, en voru að sama skapi óheppnir að missa tvo leikmenn út meidda í leiknum.
Forkeppni ÓL24, karlar: Leikir, úrslit, staðan
Eitt laust sæti
Þar með hafa Spánverjar, Slóvenar, Króatar, Þjóðverjar og Norðmenn öðlast þátttökurétt í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í sumar. Eitt sæti stendur eftir, þegar þetta er ritað. Um það bítast Ungverjar og Portúgalar í Tatabánya í Ungverjalandi í kvöld í síðasta leik 3. riðils forkeppninnar.
Áður en forkeppni ÓL hófst á fimmtudaginn áttu landslið sex þjóða vís sæti í handknattleikskeppni karla á leikunum:
Frakkland, gestgjafi.
Danmörk, heimsmeistari.
Japan, vann forkeppni Asíu.
Argentína, vann forkeppni Suður Ameríku.
Egyptaland, Afríkumeistari.
Svíþjóð, frá EM karla 2024.
Forkeppni Ólympíuleikanna í handknattleik kvenna fer fram 11. – 14. apríl.