Hergeir Grímsson hefur ákveðið að ganga til liðs við Hauka að lokinni yfirstandandi leiktíð. Selfyssingurinn hefur undanfarin tvö ár leikið með Stjörnunni í Garðabæ en var þar áður leikmaður Selfoss. Hann var m.a. í Íslandsmeistaraliði Selfoss árið 2019.
Hergeir sem er 27 ára gamall getur bæði leikið sem miðjumaður og í vinstra horni. Hergeir lék með yngri landsliðum Íslands og var í stóru hlutverki hjá Stjörnunni eins og hjá Selfossi.
Hergeir skoraði 109 mörk í 22 leikjum með Stjörnunni í Olísdeildinni í vetur og var á meðal markahæstu manna deildarinnar.
„Í Hergeiri fáum við vinnusaman, baráttuglaðan og dýnamískan leikmann sem mun styrkja liðið okkar í baráttunni,“ segir m.a. í tilkynningu Hauka í kvöld.