„Það var sterkt hjá okkur að klára þetta og gildir þá einu hversu mikill munurinn er þegar upp er staðið. Sigurinn er jafn mikilvægur,“ sagði Sverrir Eyjólfsson þjálfari Fjölnis eftir að lið hans vann fyrsta leikinn í umspili Olísdeildar karla gegn Þór í Fjölnishöllinni í kvöld, 30:26, eftir framlengingu. Þór tókst að jafna metin, 23:23, rétt fyrir lok venjulegs leiktíma. Miklar sveiflur voru í leiknum og skiptust liðin á um að ná áhlaupum.
„Við vissum að Þórsarar myndu aldrei gefast upp. Við vorum komnir í þægilega stöðu en nýtingin var stundum ekki nógu góð í dauðafærum,“ sagði Sverrir sem sagði sóknarleik liðsins hafa að mörgu leytið gengið upp, nýting færanna hefði stundum mátt vera betri.
„Fyrir vikið hleyptum við Þórsurum inn í leikinn sem er nokkuð sem við verðum að skoða. Það myndaðist stífla hjá okkur undir lokin.“
Skemmtilegustu leikirnir
Sverrir sagði umspilið vera skemmtilegt en þetta er annað árið í röð sem hann er með Fjölnisliðið í þessum sporum. „Þetta er gaman og menn verða að muna að njóta þess líka. Það getur allt gerst eins og við munum frá því í fyrra þegar við vorum mjög nálægt því að vinna Víking í oddaleik. Þá vorum við ekki taldir eiga mikinn möguleika,“ sagði Sverrir sem hlakkar til leiksins á Akureyri á þriðjudaginn.
Fjölmenni og góð stemning
„Vonandi verður eins góð stemning á þeim leik og var hér í kvöld. Fullt af fólki, bæði frá okkur og eins Akureyringar. Þess vegna er um að gera að njóta þess að taka þátt í þessu,“ sagði Sverrir Eyjólfsson þjálfari Fjölnis í samtali við handbolta.is í Fjölnishöllinni í kvöld.
Nánar er rætt við Sverri í myndskeiðinu efst í fréttinni.
Leikjadagskrá umspils Olísdeildar karla.
Myndasyrpa frá leiknum í kvöld: