- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Danir fyrstir í undanúrslit – skoruðu átta mörk í röð

Leikmenn danska landsliðsins fagna sæti í undanúrslitum ÓL. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Danska landsliðið var fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum handknattleikskeppni kvenna á Ólympíuleikunum þegar liðið lagði hollenska landsliðið, 29:25, í Pierre Mauroy Stadium í Lille í morgun. Danir mæta annað hvort Noregi eða Brasilíu í undanúrslitum á föstudaginn en lið síðarnefndu þjóðanna tveggja eigast við í kvöld.

Danska landsliðið er í fyrsta sinn í 12 ár með í handknattleikskeppni kvenna á Ólympíuleikum.

Danir voru marki yfir í hálfleik, 11:10, eftir að hafa byrjað afar illa. Hollendingar skoruðu fjögur fyrstu mörkin og danska liðið náði ekki að skora sitt fyrsta mark fyrr en eftir liðlega fimm mínútur þegar Emma Friis skoraði úr vinstra horni, 4:1. Danska liðið vann sig jafnt og þétt inn í leikinn, ekki síst með öflugum varnarleik og stórleik Altheu Reinhardt í markinu.

Dönsku markverðirnir Althea Reinhardt og Sandra Toft ánægðar með dagverkið í Lille í morgun. Ljósmynd/EPA

Danska liðið skoraði átta mörk í röð frá lokum fyrri hálfleiks og fram á fyrstu mínútur síðari hálfleiks án þess að Hollendingum tækist að svara fyrir sig. Staðan breyttist úr 7:10 Hollandi í hag í 15:10 Dönum í vil. Um miðjan síðari hálfleik var forskot Dania komið niður í tvö mörk, 20:18. Nær komst hollenska liðið ekki og Danir héldu sínu striki til leiksloka.

Estavana Polman fékk óblíðar móttökur hjá Line Haugsted í leiknum. Ljósmynd/EPA

Martröð Polman

Leikurinn var sannkölluð martröð fyrir hollensku handknattleikskonuna Estvana Polman sem lék í 11 ár í Danmörku, þar af í nokkur ár undir stjórn Jespers Jensen hjá Esbjerg. Jensen er nú landsliðsþjálfari Dana. Polman, sem var besti leikmaður HM 2019 þegar Holland varð heimsmeistari, flosnaði upp hjá Esbjerg 2022 eftir langvarandi meiðsli og ósætti við Jensen sem náði ákveðnum lágpunkti þegar móðir Polman mætti á leik með Esbjerg og las þjálfaranum pistilinn að viðstöddum áhorfendum í leikslok. Polman skoraði tvö mörk í 10 skotum í dag og var svo langt frá sínu besta.

Þess má geta að Hollendingar og Þjóðverjar, sem leika við Frakka í átta liða úrslitum síðar í dag, verða með íslenska landsliðinu í riðli á Evrópumótinu sem fram fer í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi í lok nóvember og framan af desember.

Mörk Danmerkur: Emma Friis 6, Anne Mette Hansen 6/5, Louise Vinter Burgaard 4, Mie Højlund 4, Sarah Aaberg Iversen 3, Kristina Jørgensen 3, Rikke Iversen 1, Mette Tranborg 1, Helena Elver 1.
Varin skot: Althea Reinhardt 17, 41%.
Mörk Hollands: Bo van Wetering 7, Dione Housheer 7, Angela Malenstein 5/2, Estvana Polman 2, Nikita van der Vliet 1, Tamara Haggerty 1, Larissa Nusser 1, Laura van fer Heijden 1.
Varin skot: Yara ten Holte 11/1, 32% – Rinka Duijndam 2, 25%.

Sjá einnig: ÓL24: handbolti kvenna, leikir, úrslit, staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -