Danska landsliðið hafði betur gegn því sænska í viðureigninni um bronsverðlaunin í handknattleikskeppni kvenna á Ólympíuleikunum í morgun. Þetta eru fyrstu verðlaun Dana í handknattleik kvenna á Ólympíuleikum í tvo áratugi eða síðan gullverðlaun unnust á leikunum í Aþenu 2004.
Svíar verða að gera sér fjórða sætið að góðu aðra leikana í röð eftir að hafa byrjað keppnina með öruggum sigri á norska landsliðinu fyrir rúmum tveimur vikum. Sænska landsliðið, sem aldrei hefur unnið til verðlauna í handknattleik kvenna á Ólympíuleikunum, beið einnig lægri hlut í viðureigninni um bronsverðlaunin á ÓL í Japan fyrir þremur árum. Þá töpuðu Svíar fyrir Norðmönnum.
Danska liðið var sterkara frá upphafi til enda í leiknum í Stade Pierre Mauroy Arena í Lille í morgun en flautað var til leiks klukkan 10 að staðartíma.
Danir eru fimmta mótið í röð á meðal fjögurra bestu liða á stómóti. Jesper Jensen landsliðaþjálfari undirstrikaði þá staðreynd í samtali strax eftir leik. „Ég er í sjöunda himni með árangurinn og liðið,“ sagði Jensen.
Sandra Toft átti stórleik í danska markinu. Hún varði 16 skot, 40%. Toft hefur staðið í skugganum á Althea Reinhardt nær alla leikana. Sú síðarnefnda tók ekkert þátt í leiknum í morgun.
Danmörk – Svíþjóð 30:25 (15:13).
Mörk Danmerkur: Mie Højlund 5, Trine Østergaard 4, Helena Elver 4, Emma Friis 4, Anne Mette Hansen 3, Rikke Iversen 3, Kristina Jørgensen 3/2, Louise Vinter Burgaard 2, Line Haugsted 1, Sarah Aaberg Iversen 1.
Varin skot: Sandra Toft 16/1, 40%.
Mörk Svíþjóðar: Nathalie Hagman 5/2, Jamina Roberts 4, Nina Koppang 4, Linn Blohm 3, Carin Strömberg 2, Jenny Carlsson 2, Olivia Löfqvist 2, Tyra Axnér 1, Elina Hansson 1, Emma Lindqvist 1.
Varin skot: Evelina Eriksson 9, 39% – Johanna Bundsen 2, 12%.
ÓL24: handbolti kvenna, leikir, úrslit, staðan