Víkingur hefur samið við fjóra nýja leikmenn til að styrkja lið sitt fyrir átökin í Grill 66-deild karla á næstu leiktíð eftir því sem fram kemur í tilkynningu handknattleiksdeildar félagsins í dag.
Ásgeir Snær Vignisson, Egill Már Hjartarson, Kristján Helgi Tómasson og Stefán Huldar Stefánsson markvörður bætast í hópinn af fullum þunga. Stefán Huldar gekk til liðs við Víking á skammtímasamningi um síðustu áramót en kom lítið við sögum vegna meiðsla. Vonir standa til að hann verði galvaskur með liðinu í vetur og hefur þar af leiðandi samið til tveggja ára.
Ásgeir Snær Vignisson
„Við erum mjög ánægð með að hafa samið við Ásgeir Snæ til næstu 2 ára. Ásgeir kemur til með að leika lykilhlutverk í uppbyggingu meistaraflokks karla í Víkingi. Ásgeir er vinstrihandarskytta með góða skotgetu utan af velli og með góðan leikskilning. Ásgeir kemur til okkar með reynslu eftir að hafa spilað með sterkum liðum í Olísdeild karla og reynt fyrir sér í atvinnumennsku í Noregi og Svíþjóð,“ segir Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari meistaraflokksliðs Víkings í karlaflokki og yfirmaður handknattleiksmála.
Aðalsteinn segist sannfærður um að Ásgeir Snær nái að sýna sínar bestu hliðar í Víkingsbúningnum eftir axlarmeiðsli síðustu ára.
Hann var síðast með Selfossi.
Egill Már Hjartarson
„Egill Már er örvhent skytta sem kemur til með að fá tækifæri til að þróa sinn leik og veita Ásgeiri Snæ harða samkeppni í vetur. Egill er hávaxinn leikmaður með góða skotgetu. Ég er viss um að í búningi Víkings geti Egill Már með vinnusemi tekið næsta skref framávið á sínum ferli,“ er haft eftir Aðalsteini í tilkynningu frá Víkingi.
Egill Már var í HK á síðustu leiktíð en var þar áður í Færeyjum eitt tímabil.
Kristján Helgi Tómasson
„Kristján Helgi er vinstri skytta sem kemur að láni frá Stjörnunni. Hann er ungur og kröftugur leikmaður sem hefur verið viðloðandi yngri landsliðin síðastliðin ár og á framtíðina fyrir sér. Við erum viss um að Kristján eigi eftir að nýtast okkur vel í ár og fá þannig gott tækifæri til þess að þróa og þroska leik sinn,“ segir Aðalsteinn.
Víkingar vilja þakka Stjörnunni fyrir þægilegt og gott samstarf við að gera þennan lánsamning að veruleika.
Stefán Huldar Stefánsson
„Stefán er reynslumikill markmaður sem kemur til með reynast okkur mikilvægur hlekkur á okkar vegferð. Stefán hefur átt við erfið hnémeiðsli að stríða undanfarin misseri, en hann er á góðri leið í sinni endurhæfingu. Við erum við sannfærð um að koma hans í liðið muni styrkja hópinn umtalsvert. Frammistaða Stefáns í deildinni áður en að meiðslin bremsuðu hann af var framúrskarandi,“ segir Aðalsteinn í tilkynningu Víkings í dag.
Stefán Huldar er reynslumikill markvörður sem lék með Haukum um árabil en gerði það einnig afar gott með Gróttu um tveggja ára skeið, 2020 til 2022.