- Auglýsing -
- Henny Reistad var fyrirliði norska landsliðsins í fyrsta sinn í gær þegar liðið vann þýska landsliðið, 32:30, á fjögurra liða æfingamóti í Larvik. Hún hélt upp á áfangann með því að skora 12 mörk. Emily Bölk og Alina Grijseels skoruðu sex mörk hvor fyrir þýska landsliðið sem verður andstæðingur íslenska landsliðsins í riðlakeppni Evrópumótsins í Innsbruck í byrjun desember.
- Þórir Hergeirsson er að búa norska landsliðið undir þátttöku á EM sem hefst eftir mánuð en það verður hans síðasta stórmót með norska landsliðið.
- Miklar breytingar hafa orðið á norska landsliðinu síðan það varð Ólympíumeistari í ágúst. Nora Mørk, Veronika Kristiansen og Stine Oftedal eru ekki með. Sú síðarnefnda er hætt í handknattleik. Hún var heiðruð fyrir viðureign Noregs og Þýskalands í Larvik í gær. Kristiansen er barnshafandi og Mørk er í fríi frá handknattleik vegna langvarandi meiðsla.
- Á sama móti í Larvik vann hollenska landsliðið það danska, 36:31, í fyrstu umferð í gær. Hollenska landsliðið verður einnig einn mótherja íslenska landsliðsins á Evrópumótinu. Lois Abbingh var markahæst í hollenska liðinu með sjö mörk og Bo Van Wetering var næst á eftir með sex mörk.
- Svíinn Henrik Signell stýrði holenska landsliðinu í fyrsta sinn í gær en hann tók við þjálfun þess fyrir fáeinum vikum eftir að hafa sagt starfi sínu lausu með landslið Suður Kóreu.
- Michala Elsberg Møller, Andrea Hansen og Anne Mette Hansen skoruðu fjögur mörk hver fyrir danska landsliðið.
Hollenska landsliðið mætir þýska landsliðinu á mótinu í Larvik á morgun en frídagur er frá kappleikjum í dag. Einnig eigast frændþjóðirnar Noregur og Danmörk við á morgun.
- Íslenska landsliðið mætir pólska landsliðinu í vináttuleik í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal klukkan 20.15 í kvöld og klukkan 16 á morgun í Sethöllinni á Selfossi. Frítt verður inn á leikina auk þess sem þeir verða sendir út á Handboltapassanum.
- Sænska kvennalandsliðið vann það spænska, 40:24, á fjögurra liða móti í Eskilstuna í Svíþjóð í gær. Á sama móti lagði ungverska landsliðið það franska, 30:27.
- Auglýsing -