- Auglýsing -
- Dana Björg Guðmundsdóttir og liðsfélagar í Volda eru áfram í efsta sæti næst efstu deildar norska handknattleiksins. Í gær vann Volda liðskonur Utleira, 29:24, á útivelli eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 12:11. Dana Björg skoraði fjögur mörk. Volda hefur 27 stig eftir 15 leiki.
- Birta Rún Grétarsdóttir skoraði eitt mark og var í tvígang vikið af leikvelli í tvær mínútur þegar lið hennar, Fjellhammer, vann Flint Tønsberg, 36:25, í næst efstu deild norska handknattleiksins í gær. Leikið var á heimavelli Flint Tønsberg. Fjellhammer var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:13. Fjellhammer er með 25 stig að loknum 15 leikjum eins og Aker.
- Elías Már Halldórsson og liðskonur hans í Fredrikstad Bkl. töpuðu með 11 marka mun fyrir þýska liðinu Bensheim/Auerbach, 39:28, á heimavelli í 1. umferð D-riðils Evrópudeildar kvenna í handknattleik í gær. Bensheim/Auerbach var fjórum mörkum yfir þegar fyrri hálfleikur var að baki, 20:16.
- Fredrikstad Bkl. sækir Paris 92 heim til Frakklands í annarri umferð Evrópudeildarinnar um næstu helgi. Sextán lið unnu sér sæti í Evrópudeildinni og leika þau í fjórum riðlum.
- Harpa María Friðgeirsdóttir var ekki á meðal þeirra sem skoraði fyrir TMS Ringsted þegar liðið tapaði á laugardaginn á heimavelli fyrir Ajax, 33:28, í næsta efstu deild danska handknattleiksins. Alexandra Lacrabere, fyrrverandi landsliðskona Frakklands, skoraði 11 mörk fyrir Ringsted sem er í þriðja neðsta sæti með sjö stig eftir 12 leiki. Ajax er í þriðja sæti.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -