Íslenska landsliðið í handknattleik karla æfði í fyrsta sinn síðdegis í dag í Tasos Kampouris-keppnishöllinni í Chalkida, bæ um 100 km austur af Aþenu. Þar fer fyrri viðureign þjóðanna fram í undankeppni EM2026 síðdegis á miðvikudaginn.
Komu á síðustu stundu
Tólf af 17 leikmönnum voru mættir þegar æfingin hófst klukkan 17 að staðartíma, 15 að íslenskum. Ýmir Örn Gíslason kom til leiks rétt eftir klukkan 17 og Orri Freyr Þorkelsson þegar nærri hálftími var liðinn af æfingatímanum. Báðir voru þeir að koma frá félagsliðum sínum, annarsvegar í Þýskalandi og hinn frá Portúgal. Tafir vegna verkfalla á flugvöllum í Þýskalandi setti verulegt strik í reikninginni hjá þeim. Ekki síst Orra Frey sem varð að fá nýtt tengiflug á elleftu stundu.
Tveir náðu ekki í tæka tíð
Þrír leikmenn náðu ekki æfingunni; Einar Þorsteinn Ólafsson, Ísak Steinsson og Janus Daði Smárason. Tveir þeirra áttu leiki með félagsliðum sínum í gærkvöld. Góða vonir standa til að þeir skili sér allir til Chalkida í kvöld og verða með á æfingunum á morgun en þá er stefnt á tvær æfingar.
Má muna sinn fífil fegri
Tasos Kampouris-keppnishöllin má muna sinn fífil fegri og ljóst viðhald hefur setið á hakanum í þeim fjárhagsþrengingum sem Grikkir hafa átt í um langt árabil. Hún er sögð rúma 2.000 áhorfendur að meðtöldum stæðum. Grikkir léku við Georgíumenn í Tasos Kampouris í nóvember og unnu naumlega með eins marks mun.
Með ólíkindum er að keppnishöllin í Chalkida standist kröfur Handknattleikssambands Evrópu, þótt ekki nema sé aðeins litið til þeirra krafna sem gerðar eru til Laugardalshallar sem er ólíkt betri.
Óskar Bjarni Óskarsson aðstoðarþjálfari landsliðsins og þjálfari Vals æfði með Valsliðinu í Tasos Kampouris-keppnishöllinni fyrir úrslitaleikinn við Olympiakos síðasta vori. Óskar Bjarni sagði við handbolta.is í dag eitthvað hafi verið hresst upp á gólfið síðan Valsmenn æfðu í fyrra en þá voru holur víða í parketinu.