„Fyrst og fremst er það mikill heiður að vinna nafnbótina Íþróttamaður ársins. Kannski átti maður eitthvað meira von á að vinna í ár en í fyrra en fyrst og fremst er ég stoltur og ánægður,“ sagði handknattleiksmaðurinn Ómar Ingi Magnússon í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir að hann var kjörinn Íþróttamaður ársins annað árið í röð í glæsilegu hófi Samtaka íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í Hörpu.
Yfirburðakosning
Ómar var kjörinn með yfirburðum með 615 af 620 stigum mögulegum en 31 félagi í Samtökum íþróttafréttamanna tók þátt í kjörinu að þessu sinni. Ómar Ingi var í efsta sæti á 30 atkvæðaseðlum en í öðru sæti í einum eftir stórglæsilegt keppnisár jafnt með landsliðinu sem og félagsliði sínu SC Magdeburg. Ómar Ingi varð m.a. markakóngur EM fyrstur Íslendinga í 20 ár.
Opnaði augu okkar
Spurður hvað hafi staðið upp úr sagði Ómar Ingi að árangur landsliðsins á EM í janúar standi einna hæst. „Árangurinn opnaði kannski enn meira augu okkar fyrir hversu langt við getum náð og hversu mikil orka er fyrir hendi innan hópsins. Við fengum ákveðna staðfestingu á því. Einnig standa upp úr tveir titlar með Magdeburg, þá sérstaklega meistaratitilinn sem félagið vann eftir tveggja áratuga bið,“ sagði Ómar sem var í mótslok í Þýskalandi valinn besti leikmaður tímabilsins og varð auk þess næst markahæstur og fjórði hæsti þegar kom að fjölda stoðsendinga.
Íþróttamenn ársins úr röðum handknattleiksfólks: 1964 - Sigríður Sigurðardóttir, Val. 1968 - Geir Hallsteinsson, FH. 1989 - Alfreð Gíslason, Bidasoa. 1997 - Geir Sveinsson, Montpellier. 2002 - Ólafur Stefánsson, Magdeburg. 2003 - Ólafur Stefánsson, Ciudad Real. 2006 - Guðjón Valur Sigurðsson, Gummersbach. 2008 - Ólafur Stefánsson, Ciudad Real. 2009 - Ólafur Stefánsson, Ciudad Real. 2010 - Alexander Petersson, Füchse Berlin. 2012 - Aron Pálmarsson, THW Kiel. 2021 - Ómar Ingi Magnússon, SC Magdeburg. 2022 - Ómar Ingi Magnússon, SC Magdeburg.
Á inni framfarir
Ómar Ingi er aðeins 25 ára og hefur þegar skipað sér á bekk með allra fremstu handknattleiksmönnum samtímans. Hann segir þó eiga enn eftir að bæta sig á handknattleiksvellinum.
„Ég tel mig eiga bestu árin eftir og stefni á að bæta mig með hverju ári, reyndar með hverri viku sem líður,“ svaraði hann spurður hvort hann teldi sig eiga mikið eftir í þróun og framförum sem leikmaður.
Stórmótafiðringur
Ellefta janúar hefst heimsmeistaramót karla í handknattleik í Póllandi og í Svíþjóð. Ómar Ingi verður vitanlega í íslenska landsliðinu sem tekur þátt í mótinu. Talsverðar vonir eru bundnar við að íslenska landsliðið nái góðum árangri. Ómar Ingi viðurkennir að svokallaður stórmótafiðringur sé farinn gera vart við sig.
Okkar væntingar eru ekki minni
„Maður hefur hugsað um mótið meðal annars síðustu vikur og mánuði. Hvað þurfum við að varast og hvað við verðum að gera vel til þess að ná góðum árangri. Maður finnur fyrir bjartsýni og góðum vonum fyrir okkar hönd sem er bara mjög gott. Við viljum hafa það þannig en um leið standa undir þeim væntingum sem gerðar eru til okkar.
Við setjum pressu á okkur sjálfa um að gera vel og ná árangri. Okkar eigin væntingar eru ekkert minni en þær sem aðrir setja á okkur,“ sagði Ómar Ingi Magnússon landsliðsmaður í handknattleik, leikmaður Þýskalandsmeistara SC Magdeburg og Íþróttamaður ársins 2021 og 2022.