„Fyrst og fremst ríkir eftirvænting meðal okkur fyrir að byrja að spila,“ segir Einar Jónsson þjálfari karlaliðs Fram í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag en Framarar sækja Íslandsmeistara FH heim í fyrstu umferð Olísdeildar karla á fimmtudagskvöld.
Undirbúningurinn hefur gengið vel
„Ástandið er nokkuð gott þótt ennþá sé eitthvað um smærri meiðsli. Undirbúningurinn hefur gengið vel meðal annars vorum við í viku í æfingaferð á Tenerife sem gekk að óskum,“ segir Einar sem er hefja sitt fjórða keppnistímabil í röð í stól þjálfara karlaliðs Fram.
Framliðið er lítið breytt frá síðari hluta síðasta keppnistímabils og að verulegum hluta til skipað yngri leikmönnum fæddir 2004, 2005, 2006 og jafnvel 2007. „Við erum með nokkra eldri og reynslumeiri eins og Rúnar [Kárason] og Gauta [Hjálmarsson]. Blandan í hópnum er góð,“ segir Einar.
Meiðsli settu talsvert strik í reikninginn hjá Fram á síðari hluta síðasta tímabils sem leiddi til þess að Fram hafnaði í sjötta sæti eftir að vonir stóðu til e.t.v. yrði liðið ofar en framan af voru Framarar í hóp þriggja til fjögurra efstu.
Liðið græddi á ástandinu
„Við vorum flottir fyrir áramót í toppbaráttu. Síðan misstum við Marko frá okkur auk þess sem leikmenn meiddust. Núna græðir liðið eflaust á því hvernig úr málum spilaðist á síðari hluta tímabils í fyrra. Margir ungir strákar fengu þá tækifæri til að láta ljós sitt skína og nýttu það mjög vel. Fyrir vikið eru þeir komnir með talsvert meiri reynslu,“ segir Einar sem reiknar með að Framliðið sé óskrifað blað.
„Auðvitað viljum við verða Íslandsmeistarar en burt sé frá því þá ætlum við okkur að vera með í toppbaráttunni.“
Lítur vel út hjá Tryggva Garðari
Tryggvi Garðar Jónsson sleit hásin í vor og verður þar af leiðandi ekki með Framliðinu framan af leiktíðinni. Einar segir endurhæfingu Tryggva hafa gengið vel og að útlitið sé gott.
„Tryggvi er byrjaður að æfa með okkur og var meðal annars með okkur í æfingabúðunum á Tenerife í síðustu viku. Ennþá líða væntanlega fjórar til sex vikur þangað til að hann getur komið inn af krafti með okkur. Við munum fara hægt í sakirnar með hann. Tíminn er nægur en hann hefur verið duglegur að vinna í sínum málum,“ segir Einar Jónsson þjálfari karlaliðs Fram.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Einar efst í þessari frétt.
Fleiri viðtöl við þjálfara Olísdeildar karla:
Vissi vel að það væri áskorun falin í þessu starfi
Ungir og ferskir strákar sem eru tilbúnir að djöflast
Við erum frjálsir hér í Fjölni
Höfum mikinn áhuga á því að horfa ofar á töfluna í vetur
Erum með sama kjarna og í fyrra – skemmtilegur tími framundan
Ætlum okkur klárlega að gera betur en í fyrra
Erum ekki á þeim stað sem við viljum vera á
Það er engan bilbug á okkur að finna
Kíktu bara á vegginn, þetta er allt mjög skýrt hér
Fáum alvöru generalprufu fyrir Evrópuleikinn