Afturelding og Haukar bættust í flokk með Fram í undanúrslit Poweradebikakeppninnar í handknattleik karla í kvöld. Afturelding vann KA í framlengdum háspennuleik í KA-heimilinu, 35:32.
Haukar lögðu Hörð nokkuð örugglega með sjö marka marka mun á Ásvöllum, 37:30, eftir að hafa verið sterkari í síðari hálfleik. Ekki síst vegna stórleiks Litáans Matas Pranckevicus markvarðar Hauka.
Undanúrslit Poweradebikarsins fara fram fimmtudaginn 16. mars. Á föstudag skýrist hvort Stjarnan eða Valur fylgja Aftureldingu, Fram og Haukum í undanúrslitin
Framarar fyrstir í undanúrslit
Staðan var jöfn í hálfleik í KA-heimilinu, 11:11. KA-menn voru heldur með frumkvæðið í síðari hálfleik. Ólafur Gústafsson kom KA marki yfir 25:24, þegar 30 sekúndur voru til loka venjulegs leiktíma. Ihor Kopyshynskyi jafnaði metin fyrir Aftureldingu átta sekúndum áður leiktíminn rann út. KA-menn náðu að hefja sókn sem lauk með aukakasti. Brynjar Vignir Sigurjónsson varði skot Ólafs.
Afturelding var sterkari í síðari hluta framlengingarinnar eftir að Árni Bragi Eyjólfsson hafði komið henni yfir á síðustu sekúndum fyrri hlutans, 29:28. Árni Bragi skoraði níu mörk, þar af fjögur í framlengingu og var fyrrverandi samherjum óþægur ljár í þúfu.
Mörk KA: Ólafur Gústafsson 8, Gauti Gunnarsson 5, Einar Rafn Eiðsson 5, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Dagur Gautason 3, Jens Bragi Bergþórsson 3, Dagur Árni Heimisson 2, Ragnar Snær Njálsson 1, Arnór Ísak Haddsson 1.
Varin skot: Nicholas Satchwell 12/1, 33,3% – Bruno Bernat 3, 30%.
Mörk Aftureldingar: Árni Bragi Eyjólfsson 9/3, Ihor Kopyshynskyi 7, Blær Hinriksson 6, Þorsteinn Leó Gunnarsson 4, Birkir Benediktsson 3, Einar Ingi Hrafnsson 3, Bergvin Þór Gíslason 1, Stefán Scheving Guðmundsson 1, Gestur Ólafur Ingvarsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 7, 20,7% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 4, 30,8%.
Pranckevicus fór á kostum
Eftir jafnan fyrri hálfleik á Ásvöllum tóku leikmenn Hauka völdin í leiknum við Hörð á Ásvöllum fljótlega eftir að síðari hálfleikur hófst. Það var ekki síst vegna framúrskarandi leiks Matas Pranckevicus markvarðar. Hann leysti Aron Rafn Eðvarðsson af í hálfleik og varði allt hvað af tók.
Haukar eru þar með komnir í undanúrslit í fyrsta sinn síðan 2020. Ísfirðingar verða hinsvegar að mæta reynslunni ríkari til leiks að ári.
Mörk Hauka: Stefán Rafn Sigurmannsson 10/6, Andri Már Rúnarsson 6, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 4, Tjörvi Þorgeirsson 3, Heimir Óli Heimisson 3, Adam Haukur Baumruk 3, Geir Guðmundsson 2, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Þráinn Orri Jónsson 2, Össur Haraldsson 2.
Varin skot: Matas Pranckevicus 17/1, 45,9% – Aron Rafn Eðvarðsson 0.
Mörk Harðar: Leó Renaud-David 7, Guntis Pilpuks 4, Mikel Amilibia Aristi 4, Jón Ómar Gíslason 3, Guilherme Andrade 3, Daníel Wale Adeleye 3, Victor Iturrino 2, José Esteves Neto 2, Jhonatan Santos 1, Suguru Hikawa 1.
Varin skot: Rolands Lebedevs 5, 22,7% – Emannuel Evangelista 3, 13%.