Afturelding lagði Val í æfingaleik í handknattleik karla í Orgiohöllinni í hádeginu í 34:32, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik 17:14. Nokkuð vantaði af leikmönnum í bæði lið en það jákvæða var að Róbert Aron Hostert lék sinn fyrsta leik með Val á þessu ári.
Alexander Petersson er ekki kominn til landsins frá Þýskalandi og var þar af leiðandi ekki með fremur en í æfingaleik Vals við FH fyrir rúmri viku.
Brjósklos í hálsi
Róbert Aron greindist með brjósklos í hálsi í byrjun ársins og hefur síðan verið frá keppni. Virðst svo vera sem Róbert Aron hafi náð góðum bata en vart þarf að fjölyrða um hversu mikill styrkur það er fyrir Valsliðið á báðum endum vallarins að endurheimta piltinn.
Nokkur vinna fyrir höndum
Tíðindamaður handbolta.is á leiknum sagði Aftureldingarliðið hafa litið afar vel út og að Þorsteinn Leó Gunnarsson hafi verið sterkur. Nokkur vinna væri enn eftir við að koma nýjum línumönnum inn í leik liðsins. Sem fyrr þá voru Bergvin Þór Gíslason og Birkir Benediktsson ekki með Aftureldingu. Þeir eru að jafna sig af meiðslum.
Nokkrir fjarri góðu gamni
Magnús Óli Magnússon tók talsvert þátt í leiknum með Val.
Ísak Gústafsson, Aron Dagur Pálsson, Bergur Elí Rúnarsson og Finnur Ingi Stefánsson voru ekki með Valsliðinu auk Alexanders sem mun vera væntanlegur til landsins 30. ágúst.
Valur leikur æfingaleik við HK um miðja næstu viku. Næsti leikur Aftureldingar verður við Stjörnuna í UMSK-mótinu eftir rétta viku í Garðabæ.