Handknattleikur fær venjulega ekki mikla athygli í hollenskum fjölmiðlum, en síðustu daga hefur verið þar undantekning á. Eftir frábæra frammistöðu hollenska landsliðsins á HM hefur umfjöllun í öllum fréttamiðlum aukist verulega, eftir því segir í frétt TV2 í Danmörku. Aukin umfjöllun hefur ekki farið fram hjá hollensku landsliðskonunum.
„Þetta er sérstakt. Okkur hefði aðeins getað dreymt um að þetta yrði svona stórt í hollenskum fréttum,“ segir Lois Abbingh.
„HM hefur gefið okkur byr undir báða vængi í fjölmiðlum. Maður sér að stuðningsfólk sem þekkti ekki til handbolta horfir núna á leikina. Þetta er góð byrjun til að gera handboltann stærri, segir Zoë Sprengers.
Margt hefur breyst
Aðeins eru 13 ár síðan að hollenska handknattleikssambandið hætti við að halda Evrópumót kvenna hálfu ári áður en mótið átti að hefjast. M.a. var hætt við mótið vegna þess að talið var að það gæti riðið hollenska handknattleikssambandinu um slig af fjárhagsástæðum vegna takmarkaðs áhuga á íþróttinni í landinu. EM kvenna var fært til Serbíu 2012 með skömmum fyrirvara, Hollendingum vísað úr keppni og Ísland tók sæti Hollendinga í staðinn. Ísland var fyrsta varaþjóð inn á mótið.





