„Þetta var allt mjög nýtt fyrir mér. Allt öðru vísi umhverfi og annar handbolti en ég er vanur,“ sagði Alexander Petersson um reynslu sína af því að leika með Al Arabi sports club í Katar í meistarakeppni Asíu í handknattleik í síðasta mánuði. Alexander kom heim með silfurverðlaun í safnið frá mótinu.
Mjög mikil keyrsla
„Við spiluðum sjö leiki á tíu dögum. Þetta var mikil keyrsla, svipað og að vera á stórmóti,“ sagði Alexander sem er ánægður að vera kominn heim til Íslands á nýjan leik eftir mikla keyrslu á skömmum tíma ytra.
„Við töpuðum úrslitaleiknum í framlengingu. Ég held að forráðamenn félagsins hafi bara verið ánægðir og ég kom aftur heim með silfur,“ sagði Alexander og hló við en hann var einn af leikmönnum silfurliðs Íslands í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Peking 2008.
Talsverður munur
Alexander sagði handboltann sem félögin léku á mótinu ytra vera nokkuð frábrugðinn þeim sem leikinn er í Evrópu. „Vissulega má taka jafnmörg skref með boltann hér heima og mörkin eru jafn stór en leikurinn er svolítið öðruvísi og hvernig leikmenn hreyfa sig og þess háttar.
Vil ekki leika heilt tímabil
Það var ákveðið ævintýri að taka þátt í þessu, eitthvað sem ég er ánægður með að hafa gert. Ég myndi ekki vilja spila heilt tímabil þarna. Þrjár vikur einu sinni á árinu er allt í lagi,“ sagði Alexander Petersson og hafði gaman af því að rifja upp ævintýri sitt með Al Arabi sports club í Katar í Asíukeppni félagsliða í síðasta mánuði.
Tengt efni:
Ef Snorra og landsliðinu vantar hjálp verð ég tilbúinn
Alexander lánaður í mánuð til félagsliðs í Katar
Alexander Petersson í sögubækurnar!
Alexander tekur óvænt fram skóna semur við Val
Alexander kominn í heiðurshöll Rhein-Neckar Löwen