„Leikur okkar var mjög flatur í fyrri hálfleik,“ sagði Rúnar Sigtryggsson þjálfari Hauka eftir tveggja marka tap fyrir Fram á heimavelli, 34:32, í 7. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld. Haukar geta þakkað fyrir að hafa ekki tapað stærra eftir að hafa verið 12 mörkum undir snemma í síðari hálfleik eftir hreint hörmulegan fyrri hálfleik.
Rúnar tók tvö leikhlé á fyrstu 12 mínútum fyrri hálfleiks en tókst ekki að snúa sínum mönnum í gang. „Eins lítill og árangurinn var af leikhléunum tveimur er ég ekki viss um að það þriðja hefði breytt miklu. Við náðum ekki áttum fyrr en eftir gott samtal í hálfleik þótt árangurinn hafi ekki skilað sér strax á upphafsmínútum síðari hálfleiks,“ sagði Rúnar sem var miður sín yfir frammistöðu leikmanna í fyrri hálfleik. Ekkert var í kortunum sem benti til þess fyrirfram að þeir myndu leika eins illa og þeir gerðu.
Voru engin teikn á lofti
„Allar útskýringar eftir svo slakan leik hljóma eins og lélegar afsakanir. Frammistaðan er ekkert í samræmi við síðustu æfingaviku. Þess vegna eru vonbrigðin með frammistöðuna í kvöld er þeim mun meiri. Það voru engin teikn á lofti um að eitthvað í þessa veruna myndi koma fyrir.
Menn reyndu að minnsta kosti
Okkur tókst að minnsta kosti að veita viðnám í síðari hálfleik og vera talsvert ákveðnari enda var svo sem ekki úr háum söðli að falla í þeim efnum. Menn reyndu að minnsta kosti í síðari hálfleik og það hefði verið hrein lýgi ef við hefðum náð jafntefli eða unnið eftir endasprettinn. Tíminn var naumur en við komumst ótrúlega nálægt. Svo má segja að þegar við áttum veika von undir lokin þá nýttum við ekki tækifærið. Það er ýmislegt að hjá okkur,“ sagði Rúnar Sigtryggsson þjálfari Hauka í samtali við handbolta.is í kvöld.