- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ánægður með hversu fagmannlegir strákarnir voru

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ég er bara mjög ánægður með hversu fagmannlega strákarnir spiluðu leikinn frá upphafi til enda þótt HM-sætið hafi ekki verið í hættu,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans eftir sigur landsliðsins á Eistlendingum í Tallinn í dag, 37:24. Með sigrinum var innsiglaður þátttökuréttur landsliðsins á HM í janúar á næsta ári.

Annað eins hefur gerst

„Um það verður ekki deilt að við erum með betra lið en Eistlendingar og kannski mikið betra. Annað eins hefur samt gerst eftir stórsigur í fyrri leik að menn slaki á í þeim síðari. Það er ekkert sjálfsagt að valtra yfir andstæðinginn í tveimur leikjum. Mér fannst strákarnir sýna einbeitingu og ríkan vilja til þess að skila þessu verkefni vel frá sér,“ sagði Snorri Steinn sem segist hafa fengið svör við ýmsum vangaveltum sínum í leikjunum tveimur og að þau verði vafalaust fleiri þegar hann skoðar leikina tvo í rólegheitum. „Eflaust er líka eitthvað sem má laga úr þessum leik í dag en fyrst og fremst frábærlega gert hjá strákunum,“ sagði þjálfarinn.

Með fótinn á bensíngjöfinni

„Sama hvað hverjum finnst þá er ekkert sjálfgefið að vinna fyrri leikinn með 25 marka mun. Vegna þessa örugga sigurs var sérstakt að nálgast síðari leikinn og búa menn undir hann. Í hálfleik í dag hefði verið auðvelt að fara út í að slaka. Sú varð ekki raunin. Menn voru með fótinn á bensíngjöfinni svo gott sem til enda leiksins þótt ljóst hafi verið nánast frá upphafi að HM-sætið væri í höfn. Fyrir vikið styrkir þessi frammistaða okkur,“ sagði Snorri Steinn sem sem hittir landsliðið næst hér á landi í lok október þegar kemur að undankeppni EM 2026.

Hef góða tilfinningu

„Fyrst og síðast er bara góð vika að baki hjá okkur þjálfurunum með leikmönnunum. Ég hef góða tilfinningu fyrir liðinu eftir leikina. Fyrir mig sem þjálfara er gott að vera kominn með farseðilinn á HM í hendurnar. Þar með getur maður farið að huga að því verkefni af meiri þunga en áður,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -