- Auglýsing -
- Auglýsing -

Andstæðingur FH: Sezoens Achilles Bocholt

Einar Bragi Aðalsteinsson og Jón Bjarni Ólafsson verða í eldlínunni með FH gegn belgíska liðinu Sezoens Achilles Bocholt. Mynd/J.L.Long Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

FH-ingar glíma við belgíska handknattleiksliðið Sezoens Achilles Bocholt í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar. Eftir því sem næst verður komist leikur Sezoens Achilles Bocholt í sameiginlegri deildarkeppni Belga og Hollendinga. Liðið situr í öðru sæti með 12 stig að loknum átta leikjum, er stigi fyrir ofan Volendam frá Hollandi sem á leik til góða og er stigi á eftir Lions.

Fimm sinnum belgískur meistari

Sezoens Achilles Bocholt er með höfuðstöðvar í 13 þúsund manna bæ, Bocholt, í norðurhluta Belgíu, nærri landamærum Hollands. Liðið hefur fimm sinnum orðið belgískur meistari í handknattleik karla, síðast 2019. Einnig hefur það unnið belgísk/hollensku-deildina fimm sinnum, síðast 2020. Liðið lék til úrslita í keppninni 2022.

Einn Serbi

Flestir leikmenn Sezoens Achilles Bocholt eru annað hvort Belgar eða Hollendingar. Einn Serbi er skráður leikmaður og mun hann leika í hægra horni.

Sezoens Achilles Bocholt tók á ný þátt í Evrópukeppni á þessari leiktíð. Áður var það árlega með í keppninni frá 2013 til 2019 og yfirleitt heltist úr lestinni í fyrstu umferð.

Unnu Íslandsvini á dögunum

Í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar í ár vann Sezoens Achilles Bocholt liðsmenn HC Dragunas Klaipeda frá Litáen samanlagt, 58:43. Jafntefli varð í leik liðanna í Litáen á síðasta laugardag, 26:26. Belgíska liðið vann á heimavelli sínum, 34:27, laugardaginn 14. október.

Þess má geta til gamans og fróðleiks að tveir handknattleiksmenn sem leikið hafa hér á landi, Karolos Stropus og Gytis Smantauskas, leika með HC Dragunas Klaipeda. Til viðbótar er Roberta Strope eiginkona Karolis skráður A-starfsmaður liðsins. Smantauskas lék með FH 2021/2022.

Mættu Belgum fyrir fjórum árum

Ekki eru nema fjögur ár síðan FH mætti síðast félagsliði frá Belgíu í Evrópukeppni. Í september 2019 vann FH liðsmenn HC Visé BM, 29:21, í Kaplakrika eftir jafntefli úti í Belgíu, 27:27. HC Visé BM er aðeins þremur stigum á eftir Sezoens Achilles Bocholt í belgísk/hollensku-deildinni sem áður er getið.

Leikir 3. umferðar eða 32 liða úrslita, eiga að fara fram 25. og 26. nóvember og 2. og 3. desember. Innan nokkurra daga ætti að skýrast hvort liðin nýta heimaleikjarétt sinn eða kjósa að leika báða leikina heima eða að heiman. Ef leikið verður heima og að heima fer fyrri leikurinn fram á heimavelli FH.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -