Eyjamaðurinn Arnór Viðarsson hefur ekki fengið mörg tækifæri með danska úrvalsdeildarliðinu Fredericia HK síðustu vikur. Eftir því sem handbolti.is kemst næst er unnið að því að koma Arnóri á lánasamning hjá liði þar sem hann getur fengið að leika handknattleik með reglubundnum hætti.
Arnór er við hestaheilsu og eru meiðsli þar af leiðandi ekki ástæða þess að Arnór hefur ekki leikið með danska liðinu sem staðið hefur í ströngu jafnt í dönsku deildinni og í Meistaradeild Evrópu síðustu vikur.
Arnór, sem er 22 ára gamall, gekk til liðs við Fredericia HK í sumar á þriggja ára samningi eftir að hafa verið í stóru hlutverki hjá ÍBV, m.a. í meistaraliðinu vorið 2023 en einnig á síðasta tímabili þegar ÍBV komst í undanúrslit Íslandsmótsins og lék til úrslita í Poweradebikarnum. Einnig var Arnór í 21 árs landsliðinu sem hafnaði í þriðja sæti á HM í Berlín sumarið 2023.
Arnór lék nokkuð með Fredericia framan af tímabilinu í haust en síðan fækkaði tækifærunum.
Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia HK.