- Auglýsing -

Axarskaft setur þýsku 2. deildina í uppnám – fallbaráttan í óvissu

- Auglýsing -


Harla óvenjulegt mál er komið upp í þýsku 2. deildinni í handknattleik nærri viku eftir að keppni í deildinni lauk. Nú hefur dómstóll kveðið upp þann dóm að TUSEM Essen og Dessau-Roßlauer HV skuli mætast á nýjan leik 30. júní vegna axarskafts sem tímaverðir og eftirlitsmenn gerðu í viðureign liðanna 29. apríl þegar þeim yfirsást að annað liðið var með of margra leikmenn inni á vellinum a síðustu mínútum. Úrslit leiksins væntanlega geta haft mikil áhrif á lokastöðuna í deildinni. Sá böggull fylgir ennfremur skammrifi að dómnum er ekki hægt að áfrýja.

Hefur áhrif á fallið

Tapi Dessau-Roßlauer HV leiknum 30. júní fellur liðið en ASV Hamm, sem féll úr deildinni á síðasta laugardag þegar lokaumferðin fór fram, heldur sæti sínu. Takist Essen að vinna innsiglar liðið sér sæti beint í 3. umferð þýsku bikarkeppninnar á kostnað TV Großwallstadt og bjargarASV Hamm frá falli.

Mikil óvissa með leikmenn

Ljóst að nokkur óvissa er varðandi leikinn fyrirhugaða. Nokkrir leikmenn beggja liða eru lausir undan samningi eða verða það, æfingar hafa lagst af, einn öflugasti leikmaður Essen sleit krossband í síðasta mánuði. Til viðbótar verða leikmenn frá liðunum með þýska 21 árs landsliðinu á HM síðari hluta mánaðarins.

Of margir á vellinum

Í leiknum sem var í 29. umferð þann 27. apríl á milli TUSEM Essen og Dessau-Roßlauer HV tapaði TUSEM naumlega, 28:27. Í framhaldinu lagði Essen fram kæru á framkvæmd leiksins vegna þess að einn leikmaður átti að vera í tveggja mínútna kælingu.
Dessau-Roßlauer HV lék með sjö leikmenn á vellinum á lokakaflanum í stað sex eins og þeim bar. Sjöundi maðurinn fór framhjá eftirlitsmönnum. Dómstóllinn úrskurðaði að þetta væri brot á reglum af hálfu eftirlitsmanns, tímavarðar og ritara og hefur dæmt leikinn ógildan og að hann verði að leika á ný.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -