- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Axel með þýðingamesta vítakast Þýskalands!

Axel Axelsson á línusendingu inn á Ólaf H. Jónsson.
- Auglýsing -

Axel Axelsson tók þýðingamesta vítakastið í sögu þýsku „Bundesligunnar“ í handknattleik, þegar hann tryggði Grün Weiss Dankersen Minden þýskalandsmeistaratitlinn í handknattleik 15. maí  1977 í hreinum úrslitaleik í Westfalenhalle í Dortmund fyrir framan 6.500 áhorfendur.

 Dankersen lék þá við Grosswallstadt í síðasta hreina úrslitaleiknum, en þá var fyrirkomulagið þannig að tvö lið úr norðurriðli og tvö lið úr suðurriðli „Bundesligunnar“ mættust í undanúrslitum, heima og heiman, og sigurvegarar mættust síðan í úrslitaleik. Nýtt fyrirkomulag á „Bundesligunni“ var síðan tekið upp keppnistímabilið 1977-1978, en þá léku 14 lið í úrvalsdeild. Það voru ekki allir ánægðir með það fyrirkomulag, þar sem ferðakostnaður liðanna varð miklu meiri.

 HSÍ og Dankersen ná samkomulagi

 Mikill hugur var í herbúðum Dankersen keppnistímabilið 1976-1977 og ætlaði þjálfarinn Vitomir Arsenejevic, Júgóslavíu, sér ekkert annað en Þýskalandsmeistaratitilinn. Það urðu árekstrar í byrjun árs 1977 á milli hans og Janusar Czerwinsky, landsliðsþjálfara Íslands, sem lagði mikla áherslu á að Axel og Ólafur H. Jónsson, leikmenn Dankersen, léku með í B-keppninni í Austurríki í lok febrúar, þar sem Ísland keppti um sæti á HM í Danmörku 1978.

Samkomulag náðist á milli HSÍ og Dankersen, um að Axel og Ólafur tækju þátt í undirbúningi landsliðsins að mestu, en þeir kæmu strax til Dankersen, þegar ástæða væri til.

Eftir að Axel og Ólafur höfðu farið á kostum í sigurleik gegn Spánverjum, þar sem farseðilinn á HM var nær gulltryggður, 21:17, tóku þeir Axel, sem skoraði sjö mörk í leiknum og átti fimm línusendingar á Ólaf, sem gáfu mörk, lífinu rólega og fóru heim fyrir síðasta leikinn, er keppt var við Tékkóslóvakíu um brons, 19:21. „Það var slæmt að vera án Axels og Ólafs, sem sýndu snilldartakta gegn Spánverjum,“ sagði Geir Hallsteinsson, sem var tekinn úr umferð í leiknum.

 Þriðji úrslitaleikurinn í röð!

 * Dankersen og Rheinhausen urðu efst í norðurriðlinum og komust í undanúrslit ásamt Grosswallstadt og Hofweier úr suðurriðlinum. Dankersen og Hofweier gerðu jafntefli í fyrri leiknum 15:15, en Axel fór síðan á kostum í seinni leiknum í Minden, 20:16; skoraði 5 mörk, Ólafur tvö.

 * Grosswallstadt tapaði úti fyrir Rheinhausen 15:17, en vann heima 25:16.

 * Það var ljóst að Dankersen myndi leika úrslitaleikinn um Vestur-Þýskalandsmeistaratitlinn þriðja árið í röð, en liðið hafði tapað fyrir Gummersbach 1975 og 1976. Þá hafði Dankersen orðið bikarmeistari tvö ár í röð; 1975 og 1976, en það ár tapaði liðið úrslitaleik Evrópukeppni bikarhafa fyrir Granollers á Spáni í framlengdum leik, 24:26.

 Háspennan mikla

 Það var geysileg stemning í hinni glæsilegu Westfalenhalle, sem tók 6.500 áhorfendur; var kölluð „ljónagryfjan“ eða Wembley handknattleiksins í Þýskalandi. Hátt á sjöunda þúsund áhorfenda mættu á leikinn og að sjálfsögðu voru þeir flestir frá liðunum sem áttust við. Þá var leiknum, sem fór fram klukkan fjögur á sunnudegi, sjónvarpað beint og voru þeir Axel og Ólafur heldur betur í sviðsljósinu.

Ólafur H. Jónsson þakkar fyrir sig skorar fram hjá Manfred Hofmann, markverði, 13:13. Karl Klühspies (15) horfir á.

 Leikmenn Grosswallstadt voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik, en þeir náðu aldrei að rífa sig frá leikmönnum Dankersen, sem jöfnuðu jafn harðan; Ólafur til dæmis 13:13 (sjá mynd), þegar Grosswallstadt var tveimur mörkum yfir. Spennan var mikil, það heyrðist ekki mannamál í höllinni. Dankersen jafnaði 17:17, 18:18, 19:19 og 20:20. Þegar 30 sek. voru til leiksloka fór Hans Kramer inn úr horni, en brotið var á honum áður en hann náði skoti. Dómarar flautuðu og bentu á vítapunktinn! Stuðningsmenn Grosswallstadt mótmæltu kröftuglega.

 Hávaðinn var gífurlegur í höllinni. Spennan var mögnuð. Hver tæki vítakastið? Dieter Waltke hafði skorað úr þremur vítaköstum fyrir Dankersen, en í fjórða vítakastinu hafnaði knötturinn í slá. Axel hafði tekið eitt vítakast eftir það og skorað. Það var þjálfarinn Arsenejevic sem tók ákvörðunina. Hann gaf merki inn á völlinn, benti á Axel; „Þú tekur vítakastið!“

 Dómarinn ekki búinn að flauta

 Axel tók vítakastið, sendi knöttinn yfir Manfred Hofmann, landsliðsmarkvörð V-Þjóðverja. Knötturinn skall á slánni og fór niður á völlinn. Hofmann snéri sér snökkt við; ætlaði sér að ná í knöttinn og senda hann fram í hraða sókn! Varð þá fyrir því óhappi að hlaupa beint á knöttinn, sem skaust inn í markið. Stuðningsmenn Dankersen fögnuðu; MARK! Dómarar flautuðu; dæmdu markið ekki gilt. Þeir höfðu ekki verið búnir að flauta vítakastið á þegar Axel tók það. „Hávaðinn var mikill. Ég hélt að dómarinn væri búinn að flauta,“ sagði Axel.

 Endurtaka þurfti leikinn; spennan magnaðist. Bæði í höllinni og hjá sjónvarpsáhorfendum, sem horfðu á þennan mikla spennuleik. Spurningin var, tæki Axel aftur vítakastið; það þýðingarmesta í sögu „Bundesligunnar“ eða færi Waltke aftur á punktinn?

 Ákveðinn að skora!

 Það var þjálfarinn sem tók ákvörðunina! „Ég fékk kipp í magann þegar Vitomir gaf merki og kallaði; AXEL! Það var mikil spenna þegar ég stóð fyrir framan Hofmann. Ég var tilbúin og ákveðinn að skora. Sendi knöttinn niður í markhornið; óverjandi skot. Leikmenn Grosswallstadt geystust fram völlinn og urðu strax að reyna markskot. Rainer Niemeyer, markvörður okkar, sá við þeim og varði síðasta skot leiksins.”

Ólafur H. Jónsson í landsleik.

 Axel sagði að hann og Ólafur hefðu upplifað ógleymanlegar stundir; fyrst öll fagnaðarlætin Westfalenhalle. Leikmenn Dankersen komust ekki til búningsklefa fyrr en klukkustund eftir leik. Síðan tók við 153 km akstur heim, eins og hálf klukkustund í rútu. Þar tóku um fimm þúsund manns á móti leikmönnum í Dankersen, sem er lítill sex þúsund manna bær fyrir utan Minden (100 þúsund íbúar).

 Þess má geta að íþróttahúsið í Dankersen stendur við Olafstræti. Götunafnið var til löngu áður en Ólafur kom til Dankersen.

 Vlado Stenzel, landsliðsþjálfari Vestur-Þýskalands, var einn af sérfræðingunum í sjónvarpi. Hann sagði að mikil og góð reynsla sem leikmenn Dankersen hafi fengið í tveimur úrslitaleikjum 1976, hafi reynst þeim vel í taugaspennunni í lokin. „Sú reynsla skilaði þeim meistaratitli!“

 Grosswallstadt lagði Val

 * Þess má geta að Kurt Klühspies, sem skoraði níu mörk, lék aðalhlutverkið hjá Grosswallstad, sem varð síðan V-Þýskalandsmeistari  fjögur ár í röð; 1978-1981 og liðið varð Evrópumeistari meistaraliða 1979-1980, með því að leggja Val að velli í úrslitaleik í München, 21:12.

Meistarahjónin Axel Axelsson og Kristbjörg Magnúsdóttir.

 Meistarahjón

 * Axel og Ólafur urðu aftur á móti bikarmeistarar 1979, þegar Dankersen vann Kiel í úrslitaleik í Hamborg, 19:14. Axel skoraði fjögur mörk, Ólafur þrjú.

 * Axel varð þrisvar bikarmeistari með Dankersen og einu sinni Vestur-Þýskalandsmeistari. Eiginkona hans, Kristbjörg Magnúsdóttir, varð tvisvar Vestur-Þýskalandsmeistari með Eintracht Minden og einu sinni bikarmeistari. Ólafur varð tvisvar bikarmeistari með Dankersen og einu sinni Vestur-Þýskalandsmeistari.

 HSÍ kallar á landsliðsmenn heim!

 Í næstu umfjöllum um Íslendinga í Þýskalandi verður sagt frá snjöllum hópi leikmanna sem héldu merki Íslands á lofti þegar Axel og Ólafur héldu heim. Kynslóðaskipti urðu! Þá koma við sögu Bjarni Guðmundsson, Val, Sigurður Valur Sveinsson, Þrótti, Atli Hilmarsson, Fram/FH, Alfreð Gíslason, KA/KR, Kristján Arason, FH, Jóhann Ingi Gunnarsson, þjálfari, Val og Páll Ólafsson, Þrótti.

 Frægir félags- og landsliðsþjálfarar Vestur-Þýskalands lofuðu þessa leikmenn í hástert. HSÍ kallaði á þessa leikmenn heim til að taka þátt í undirbúningi fyrir Ólympíuleikana í Seoul 1988. Þýsku liðin vildu halda sínum mönnum, en síðan héldu flestir þessara leikmanna í víking til Spánar og gerðu garðinn frægan þar.

 Eftir að koma víða við

 Ég tek mér nú smá frí frá söguritun fyrir handbolti.is, en kem sterkur til leiks í aprílbyrjun og klára ritverkið um leið og handknattleiksmenn í Þýskalandi ljúka keppnistímabilinu 2021-2022. Við, eins og þeir, eigum eftir að koma víða við og skemmta okkur. Já, ballið er rétt að byrja.
 Eins og fyrr segir, þá er ég „farinn í fríið“ og kynslóðaskipti Íslendinga í Vestur-Þýskalandi verður næsta söguefnið.

Auf Wiedersehn

Fyrri greinar Sigmundar um brautryðjendur sem hann hefur skrifað fyrir handbolta.is:

Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi

„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“

Geir himnasending fyrir Göppingen

Axel og Kristbjörg – meistarahjón!

„Umbarnir“ voru ekki vaknaðir!

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -