Nokkuð öruggt er að Bjarki Már Elísson og liðsmenn Telekom Veszprém séu komnir með rúmlega annan fótinn í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla eftir sjö marka sigur á Pick Szeged, 37:30, í fyrri viðureign liðanna í fyrstu umferð útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í kvöld. Leikurinn fór fram í Szeged svo ljóst er að Veszprém-liðið þarf að leika afar illa á heimavelli til þess að missa niður sjö marka forskot.
Bjarki Már skoraði eitt mark fyrir Telekom Veszprém að þessu sinni. Hugo Descat var markahæstur með sjö mörk ásamt Mikita Vailupau. Sebastian Frimmel skoraði sex mörk fyrir Pick Szeged og Imanol Garciandia Alustiza var næstur með fimm mörk.
Spánverjinn Rodrigo Corrales varði 15 skot í marki Veszprém.
Í hinni viðureign kvöldsins í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar hafði franska meistaraliðið PSG betur í heimsókn sinni til Plock í Póllandi, 30:26.