„Þeir eru sterkari en við um þessar mundir,“ sagði Ívar Bessi Viðarsson leikmaður 20 ára landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is í Celje í dag eftir sjö marka tap íslenska landsliðsins, 37:30, fyrir Spánverjum í lokaleik liðanna í riðlakeppni átta liða úrslita Evrópumótsins í handknattleik.
„Það er gaman að fá að spreyta sig gegn þeim bestu og strákum sem eru meðal annars hjá bestu liðum heims,“ sagði Eyjamaðurinn yfirvegaður.
Verð að rífa mig í gang
„Við stóðum í þeim en gæðin voru meiri hjá þeim. Við eigum góða leikmenn en við verðum að slípa okkur betur saman varnarlega. Maður þarf að nýta næsta tímabil til þess að vinna í því sem upp á vantar, þá ekki síst í þristunum. Ég verð að rífa mig í gang til þess að vera valinn aftur,“ sagði efnilegi Eyjamaðurinn sem vakið hefur mikla athygli fyrir vasklega framgöngu sem varnarmaður, bæði með ÍBV og 20 ára landsliðinu.
„Þegar við fórum í 5/1 vörn þá rann boltinn í gegnum mig eins og ég væri gatasigti. Ég get betur en þetta,“ sagði Ívar Bessi sem er dómharður á sjálfan sig.
Íslenska liðið leikur í krossspili um sæti fimm til átta á morgun en það kemur ekki í ljós fyrr en í kvöld hver andstæðingurinn verður. Ívar Bessi segir liðið vera á þeim stað sem það á vera í mótinu, þ.e. á meðal átta bestu.
„Við erum ekki á meðal þeirra átta bestu fyrir heppni þrátt fyrir úrslitin í dag. Við höfum sýnt það í mótinu að við erum á meðal þeirra bestu, stóðum í Spánverjum og gerðum jafntefli við Portúgal, svo dæmi sé tekið. Við erum með gott lið en getum engu að síður bætt margt,“ sagði Ívar Bessi Viðarsson í samtali við handbolta.is í Celje í dag.
Talsvert lengra viðtal er við Ívar Bessa í myndskeiði efst í þessari frétt.
Hörð mótspyrna nægði ekki gegn heimsmeisturunum
EMU20 karla: Leikir, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir