Einar Þorsteinn Ólafsson og liðsfélagar í HSV Hamburg gerðu usla í toppbaráttu þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í kvöld þegar þeir lögðu Þýskalandsmeistara Füchse Berlin, 39:38, í viðureign liðanna í Max Schmeling-Halle í Berlín. Füchse Berlin hefur þar með tapað þrisvar sinnum í fyrstu 10 leikjum sínum og má vart við mikið fleiri töpum ætli liðinu að takast að verja titilinn sem það vann í fyrsta sinn í vor.
Einar Þorsteinn lék í vörn HSV Hamburg stóran hluta leiksins. Hann kom lítið við sögu í sóknarleiknum en átti þó tvær stoðsendingar í hraðaupphlaupum.
Nicolaj Jørgensen var markahæstur hjá HSV Hamburg með níu mörk. Frederik Bo Andersen var næstur með sjö mörk.
Mathias Gidsel skoraði 10 mörk í 11 skotum fyrir Berlínarliðið og gaf þrjár stoðsendingar. Landi hans, Lasse Bredekjaer Andersson, skoraði 12 mörk.
HSV Hamborg er í 10. sæti með 11 stig eftir 10 leiki.
Tvö lið eru taplaus
Flensburg og SC Magdeburg eru í tveimur efstu sætum þýsku 1. deildarinnar og eru um leið einu liðin sem ekki hafa tapað leik fram til þessa.

Áfram fór Viggó á kostum
Stórleikur Viggós Kristjánsson fyrir HC Erlangen nægði liðinu ekki til þess að koma Flensburg út af sigursporinu. Viggó skoraði 10 mörk og átti sjö stoðsendingar fyrir Erlangen í, 36:30, tapi í Flensborg. Andri Már Rúnarsson skoraði fjögur mörk og átti eina stoðsendingu.
Margo Grgic og Johannes Golla skoruðu átta mörk hvor fyrir Flensburg.
Mikilvægur sigur í Hannover
Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu tvö mörk hvor fyrir SC Magdeburg í tveggja marka sigri á Hannover-Burgdorf, 24:22, þegar liðin mættust í Hannover. Gísli Þorgeir átti sjö stoðsendingar og Ómar Ingi þrjár.
Elvar Örn Jónsson var nær eingöngu í vörn Magdeburg-liðsins að þessu sinni.
Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.
Staðan í þýsku 1. deildinni í karlaflokki:





